Viðskipti innlent

Ríkið skuldar eigin lífeyrissjóðum 361 milljarð

Hið opinbera skuldar eigin lífeyrissjóðum rúmlega 361 milljarð kr. Hér er um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (LSR) og Lífeyrissjóð hjúkraunfræðinga (LH) að ræða.

Greiðslur ríkissjóðs vegna lífeyrishækkana munu nema 6-10 milljörðum kr. árlega í framtíðinni en þegar bakábyrgð fellur á ríkissjóð árið 2022 munu greiðslurnar nema samtals 25 milljörðum kr. og vera á bilinu 25-30 milljarðar kr. fram til ársins 2035. Eftir það fara greiðslurnar lækkandi.

Þetta kemur fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur þingmanns Samfylkingarinnar á Alþingi um lífeyrisskuldbindingar ríkis og sveitarfélaga.

Í svarinu segir að áætlað er að hlutdeild ríkissjóðs í skuldbindingum B-deildar LSR og LH umfram eignir sjóðanna sé samtals 361,4 milljarðar kr. vegna heildarskuldbindinga. Þar ef eru 245,8 milljarðar kr. vegna hlutdeildar ríkissjóðs í greiðslu lífeyrishækkana og 115,6 miljarðar kr. vegna bakábyrgðar.

Ekki tókst, innan þess tímafrests sem veittur er til svars, að afla umbeðinna upplýsinga frá sveitarfélögunum og fyrirtækjum þeirra.

Áfallin lífeyrisskuldbinding B-deildar LSR var 506,8 milljarðar kr. í árslok 2009. Núvirtar eignir sjóðsins voru metnar 190,7 milljarðar kr. þannig að skuldbinding umfram eignir var 316,0 milljarðar kr. í lok ársins.

Þessi hluti skuldbindingarinnar kemur til með að verða fjármagnaður með tvennum hætti. Annars vegar með endurgreiðslu frá launagreiðendum fyrir þeirra hlut í lífeyrisgreiðslum sjóðsins (lífeyrishækkanir) og hins vegar með greiðslum frá ríkissjóði vegna bakábyrgðar. Af áfallinni skuldbindingu umfram eignir er hlutdeild ríkissjóðs metin 290,1 milljarður kr. eða 92%.

Áfallin lífeyrisskuldbinding Lífeyrissjóðs hjúkrunarfræðinga var 59,5 milljarðar kr. í árslok 2009. Núvirtar eignir sjóðsins voru metnar 21,4 milljarðar kr. þannig að skuldbinding umfram eignir var 38,0 milljarðar kr. í lok ársins.

Þessi hluti skuldbindingarinnar kemur til með að verða fjármagnaður með tvennum hætti. Annars vegar með endurgreiðslu frá launagreiðendum fyrir þeirra hlut í lífeyrisgreiðslum sjóðsins (lífeyrishækkanir) og hins vegar með greiðslum frá ríkissjóði og öðrum launagreiðendum vegna bakábyrgðar. Af áfallinni skuldbindingu umfram eignir er hlutdeild ríkissjóðs metin 37,1 milljarður kr. eða 98%.

Áætlað er að hlutdeild ríkissjóðs í skuldbindingum B-deildar LSR og LH umfram eignir sjóðanna sé samtals 361,4 milljarðar kr. vegna heildarskuldbindinga. Þar ef eru 245,8 milljarðar kr. vegna hlutdeildar ríkissjóðs í greiðslu lífeyrishækkana og 115,6 miljarðar kr. vegna bakábyrgðar.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×