Viðskipti innlent

Huldufélag á Kýpur átti rúma 20 milljarða í Kaupþingi

Hlutabréf eru keypt fyrir sem nemur rúmum 7 milljörðum kr. af Kaupþingi banka í Lúxemborg, af vörslureikningi þar svo ómögulegt er að vita hverjir seljendur eru.
Hlutabréf eru keypt fyrir sem nemur rúmum 7 milljörðum kr. af Kaupþingi banka í Lúxemborg, af vörslureikningi þar svo ómögulegt er að vita hverjir seljendur eru.

Félagið Desulo Trading átti rúmlega 20 milljarða kr. í Kaupþingi og þar af hafði það keypt hlutabréf fyrir 13,3 milljarða af bankanum sjálfum með veði í bréfunum.

Desulo Trading Ltd. er stofnað og skráð í Nikosíu á Kýpur í október 2007. Ekki liggur ljóst fyrir hverjir eru í stjórn Desulo Trading Ltd. Í fundargerð lánanefndar Kaupþings dags. 5. júní 2008 kemur fram að eigandi Desulo Trading Ltd. sé Egill Ágústsson, framkvæmdastjóri Íslensk-Ameríska.

Í umfjöllun rannsóknarnefndar Alþingis um Desulo kemur fram að nefndin telur að kaup Desulo hafi verið markaðsmistnotkun og er mál félagsins því væntanlega í pakkanum sem sérstakur saksóknari fékk frá nefndinni.

Í skýrslu nefndarinnar segir að þar sem félagið er skráð á Kýpur er engar opinberar upplýsingar að finna um félagið hér á landi aðrar en beiðni um kennitölu fyrir erlent fyrirtæki vegna bankaviðskipta á Íslandi. Á beiðninni kemur fram að umboðsaðili/tengiliður félagsins hér á landi sé Kaupþing banki hf.

Tilgangur Desulo Trading Ltd. eru viðskipti sem gerð er nánari grein fyrir í samþykktum félagsins í 45 tölusettum greinum. Hlutafé er 1.000 EUR sem skiptist í 1.000 hluti. Á tímabilinu 1. janúar 2007 til falls bankanna áttu sér stað eftirfarandi viðskipti með hlutabréf og lántökur þeim tengdar vegna hlutabréfakaupa í bönkunum:

Hlutabréfaeign Desulo Trading Ltd. í Kaupþingi 1. janúar 2007 var engin. Frá miðju ári 2008 fram að falli Kaupþings fær félagið lánsheimildir hjá Kaupþingi að fjárhæð 13,4 milljarðar kr. til kaupa á hlutabréfum í bankanum sjálfum. Keypt hlutabréf á tímabilinu nema 13,3 milljörðum kr. Engin hlutabréf eru seld. Við fall bankanna átti Desulo Trading Ltd. því ennþá öll hlutabréfin sem keypt höfðu verið í Kaupþingi.

Hlutabréf eru keypt fyrir sem nemur rúmum 7 milljörðum kr. af Kaupþingi banka í Lúxemborg, af vörslureikningi þar svo ómögulegt er að vita hverjir seljendur eru. Athyglisvert er að í september eru öll hlutabréfin keypt af Kaupþingi banka, eigin viðskiptum. Nema þau viðskipti samtals um 4 milljörðum kr.

Á lánanefndarfundi Kaupþings banka þann 4. júní 2008 er veitt lánsheimild upp á 5 milljarða íslenskra króna og 150 milljónir sænskra króna til Desulo Trading Limited til kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi banka. Hlutabréfin eru að mestu leyti keypt með milligöngu Kaupþings banka í Lúxemborg. Lánið er tryggt með veði í öllum eignum lántakans, sem eru hlutabréf í Kaupþingi, og negative pledge í öllum eignum Desulo Trading Limited. 16. júní 2008 kaupir Desulo 6.500.000 hluti í Kaupþingi. Jafnframt festir Desulo kaup á 2.349.500 hlutum í Kaupþingi í kauphöllinni í Stokkhólmi.

Á lánafundi Kaupþings banka 19. júní er samþykkt að veita Desulo aukið lán upp á 770 milljónir kr. til kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi. Þann 30. júní 2008 kaupir Desulo svo 1 milljón hluta í Kaupþingi.Viðkomandi hlutabréf eru veitt sem handveð til tryggingar láninu.

Enn er aukið við lánveitingar til Desulo Trading Ltd.þann 7.ágúst 2008 með láni upp á 1.500 milljónir kr. til kaupa á 2 milljónum hluta í Kaupþingi. Hlutirnir eru færðir inn á vörslureikning Desulo þann 12. ágúst 2008.

Að lokum er þann 25.september 2008 enn veitt lán til Desulo Trading Ltd.allt að 4.140 milljónum kr.til að fjármagna hlutabréfakaup í Kaupþingi. Fjöldi keyptra hluta er 6,5 milljónir og höfðu þeir verið keyptir dagana 16.-19. september 2008 en raunar voru 500.000 hlutir síðan seldir þann 22. september 2008. Heildarútgjöld vegna viðskiptanna eru því um 4.089 milljónir kr. Fram kemur í fundargerð lánanefndar að lagðar séu að handveði allar eignir Desulo Trading, sem samanstanda af hlutabréfum í Kaupþingi. Eins og áður kemur fram er seljandi bréfanna Kaupþing banki, eigin viðskipti.

Hinn 22. september 2008, þegar öll viðskipti Desulo Trading hafa átt sér stað, á félagið því alls 15.500.000 hluti í Kaupþingi keypta á íslenska markaðnum og 2.349.500 hluti keypta á markaði með hlutabréf í Svíþjóð. Samtals er því um að ræða 17.849.500 hluti eða um 2,41% af heildarhlutafé bankans sem er fjármagnað að fullu af bankanum.Að minnsta kosti 6 milljónir af þessum hlutum voru keyptir af eigin viðskiptum Kaupþings banka.

Einu tryggingar fyrir láninu eru hlutabréfin sjálf sem lögð eru inn í bankann að handveði og kemur fram í fundargerðum lánanefndar Kaupþings að það séu allar eignir félagsins.

Ársreikningur félagsins liggur ekki fyrir enda félagið skráð erlendis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×