Lífið

Ekkert gullát á afmælinu

Jón Páll bauð sínum nánustu upp á fiskisúpu í gær því afmælisdagurinn sjálfur er undirlagður af æfingum Íslandsklukkunnar. Fréttablaðið/Vilhelm
Jón Páll bauð sínum nánustu upp á fiskisúpu í gær því afmælisdagurinn sjálfur er undirlagður af æfingum Íslandsklukkunnar. Fréttablaðið/Vilhelm
„Það er alveg ljóst að þessi tímamót verða ekki umflúin, það er ekki hægt að slá þessu á frest með því að fara í tímabundið leyfi frá þessu – ég tek þessu fagnandi,“ segir Jón Páll Eyjólfsson, leikstjóri og leikari, sem í dag, 19. apríl, á fertugsafmæli. Jón Páll hefur haft í nægu að snúast á árinu sem er að líða og mun á afmælisdaginn æfa Íslandsklukkuna sem Þjóðleikhúsið frumsýnir næstkomandi fimmtudag. Jón Páll leikur dómkirkjuprestinn og vonbiðil Snæfríðar Íslandssólar, séra Sigurð Sveinsson.

„Maður heldur fertugsafmælið á stórmerkilegum tímum, þegar rannsóknarskýrslan, sem ég held að geti verið einhvers konar grunnur að nýjum sáttmála fyrir nýtt lýðveldi, kemur út,“ segir Jón Páll en þjóðmálin eru honum hugleiknari þessa dagana en fertugsafmælið sjálft. „Þessi skýrsla gerir það skjalfest, það sem sum okkar hafa haft á tilfinningunni, að persónur stjórnmálamanna og viðskiptamanna hafa orðið stærri en kerfið sjálft og sýnir að brotavilji þeirra var einlægur. Svo er svo merkilegt að þjóðin sem úthúðar útrásarvíkingum fyrir að hafa sýnt hömluleysi, æða áfram í blindni og hugsa ekki um öryggi annarra, er sama þjóðin og ryðst fram fyrir björgunarborðana við gosið,“ segir Jón Páll og bætir við að hann gæti hugsað sér að taka þetta efni fyrir.

„Já, mig hefur langað svolítið að vinna ljósmyndaverkefni og glíma við viðbrögð okkar við gosunum. Maður er alltaf að reyna að finna einhvern annan miðil til að koma hugmyndum sínum á framfæri og það er ekki alltaf auðvelt að gera það í leikhúsinu. En varðandi gosið þá vonar maður að þjóðin geti séð það í því ljósi að það er góð og gild ástæða fyrir því af hverju við mannfólkið tókum höndum saman um að mynda samfélag – það er til að geta passað upp á hvert annað eins og við þessar aðstæður. Þannig að ef við finnum ekki til smæðar okkar núna gagnvart náttúruöflunum og förum ekki varlega, þá gerum við það aldrei.“

Jón Páll eldaði fiskisúpu fyrir sína nánustu í gær þar sem afmælisdagurinn sjálfur verður undirlagður af æfingum og segist hafa breytt heimili sínu í lítinn veislusal. „Þetta verður eitthvað lítið og nett. Ég ætla allavega ekki að fljúga á gosstöðvarnar með afmælisgesti og borða gullsnúða.“

juliam@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.