Innlent

Vika í verkfall slökkviliðsmanna

Það er um vika í að slökkiliðs- og sjúkraflutningamenn fari í eins dags verkfall ef fram fer sem horfir, að sögn Finns Hilmarssonar, varaformanns Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Það slitnaði upp úr kjaraviðræðum þeirra við Launanefnd sveitafélaga í dag.

Fyrstu aðgerðir koma til framkvæmda föstudaginn 23. júlí og verða verkföllin fleiri náist ekki samningar. Nokkur tími mun líða til næsta verkfalls.

Í verkfallinu munu þeir t.d. einungis sinna neyðarflutningum og starfsmenn verða ekki á bakvakt. Síðar gæti verið blásið til allsherjarverkfalls sem væri ótímabundið.

Ár er síðan sambandið felldi stöðugleikasáttmálann og segir Finnur að ekki hafi verið staðið við hann.

Launanefnd sveitafélaga bauð 1,4% launahækkun. Finnur segist vera orðlaust yfir lélegu tilboði.

Hann vill ekki gefa upp hverja launakröfurnar þeirra eru en segir að það sé ekkert launungamál að horft sé til samningsins sem gerður var við lögregluþjóna í vor.

Eftir því sem Vísir.is kemst næst er langt á milli krafa landssambandsins og launatilboðsins sem þeir fengu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×