Viðskipti innlent

Dótturfélög Landsbankans hafa frítt spil um launastefnu

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Dótturfélögum Landsbankans er gefið frítt spil með launastefnu eftir að Samkeppniseftirlitið gerði þá kröfu um að félögin yrðu færð frá bankanum. Nú hefur Kjararáð ekkert um laun stjórnenda þessara fyrirtækja að segja. Landsbankinn segir að launastefna hjá dótturfélögum sé hins vegar ekki frábrugðin stefnu bankans og að þar séu engir hálaunamenn.

Samkvæmt lögum þá hefur Kjararáð umsögn um laun bankastjóra Landsbankans þar sem bankinn er í ríkiseigu og það sama gildir um launakjör framkvæmdastjóra dótturfélaga bankans. Það gildir hins vegar ekki um eignaumsýslufélögin Reginn, sem á fasteignir sem bankinn hefur tekið yfir og Vestia sem á hin ýmsu fyrirtæki, t.d Húsasmiðjuna og Vodafone.

Landsbankinn hefur sett fimm dótturfélög sín í sérstakt eignarhaldsfélag sem heitir Eignarhaldsfélagið NBI ehf. Undir þessu félagi eru SP Fjármögnun, Vestia, Reginn, Horn, Landsvaki.

Þegar eignaumsýslufélögin, Reginn og Vestia, voru færð frá Landsbankanum voru launakjör stjórnenda þessara fyrirtækja undanskilin hinni opinberu umsögn Kjararáðs og því er stjórnum þeirra í raun og veru gefið frítt spil hvað varðar launakjör starfsmanna.

Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbakans, sagði í samtali við fréttastofu að launastefna þessara fyrirtækja væri hins vegar ekki frábrugðin launastefnu Landsbankans. Hann sagði að í þessu samhengi yrði til þess að líta að Samkeppnisyfirvöld hafi gert kröfu um að eignaumsýslufélögin yrðu færð frá bankanum, í því ljósi yrði að horfa til aukins sjálfstæðis þeirra.

Bankinn ætti hins vegar sína fulltrúa í stjórnum þessara félaga og hefði því mikið um það segja hvernig stefna þeirra væri mörkuð meðal annars með tilliti til launa starfsmanna. Hann sagði jafnframt að yfir þessum félögum væru engir hálaunamenn, en ekki fékkst upp gefið hver kjör þeirra væru.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×