Viðskipti innlent

Ríkissjóður hagnast á fátæku úrvali fjárfestingarkosta

Það er ljóst að fátæklegt úrval fjárfestingakosta aðstoðar ríkissjóð við að fá ódýra fjármögnun. Fjárfestar hafa fáa möguleika til að ávaxta fé sitt aðra en kaup á ríkisskuldabréfum.

Þetta kemur fram í Markaðsfréttum Íslenskra verðbréfa. Þar segir að innlendur hlutabréfamarkaður sé lítill og því óvarlegt að vera með of mikið hlutfall eignasafns bundið í honum.

Erlend verðbréf eru ekki valkostur vegna gjaldeyrishafta og verða það vart á þessu ári. Vaxandi óróleiki er með innlán vegna óvissu með gengistryggðu lánin og því eru fjárfestar ekki tilbúnir að vera með of mikið vægi í þeim eignaflokki. Fjárfestar eru því þvingaðir til að kaupa ríkistryggð bréf hvort sem þeir telja ávöxtun þeirra vera ásættanlega eða ekki.

Fram kemur að þróunin á ríkisskuldabréfamarkaðinum sýni greinilega að nú er góður tími fyrir ríkissjóð að fjármagna sig því þau kjör sem fengust í síðasta útboði eru með því besta sem fengist hefur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×