Skoðun

Samstaða

Jón Gunnarsson skrifar um samstarf á Alþingi

Auðvitað á að ríkja meiri samstarfsvilji á milli allra flokka á Alþingi. Það hefur lengi verið skoðun sjálfstæðismanna. Þetta á ekki síst við í Ice Save málinu þar sem sést hefur hverju samstaða getur skilað. Í því máli lýstum við því yfir snemma á síðasta ári að við værum tilbúin til að leggja okkar af mörkum með ríkisstjórninni við lausn málsins. Á það var ekki hlustað og því er staðan eins og hún er. Þetta mál hefur tekið alltof langan tíma í öllu tilliti.

Nú segjast ríkisstjórnarflokkarnir vilja víðtækara samráð um hin ýmsu mál og þá sérstaklega atvinnumál og málefni heimilanna. Í þessum málum hefur ríkisstjórnin sýnt algert getu- og viljaleysi. Þykir einhverjum ákall stjórnarflokkanna trúverðugt? Hefur það samstarf sem t.a.m. atvinnulífið hefur átt við þessa ríkisstjórn skilað einhverjum árangri?

Aðilar vinnumarkaðarins gerðu í fyrra „stöðugleikasáttmála“ við ríkisstjórnina. Sáttmálinn lofaði góðu og gaf vonir um frið á vinnumarkaði og að vinna hæfist við uppbyggingu atvinnulífsins og lausn á vanda fjölda heimila. Nú eru þessir aðilar farnir að kalla þennan sáttmála, „kyrrstöðusáttmála“, vegna aðgerða-, vilja- og getuleysis ríkisstjórnarinnar. Þolinmæði þeirra er skiljanlega á þrotum. Óeiningin á Alþingi er fyrst og fremst innan stjórnarflokkanna og því fáránlegt að draga stjórnarandstöðuna til ábyrgðar vegna þeirrar erfiðu stöðu sem við blasir. Við höfum ekki annað til „saka“ unnið en að gagnrýna slæleg vinnubrögð ríkisstjórnarinnar sem er okkar verkefni. Veldur hver á heldur.

Ábyrgð Alþingis er mikil og samvinna og samstaða eru sem aldrei fyrr nauðsynleg til að koma málum áfram. Til þeirra verka erum við sjálf-stæðismenn tilbúnir. Til að trúverðugleiki fylgi slíku samstarfi verður það að vera á réttum vettvangi. Ákall þjóðarinnar eftir meiri samstöðu er réttmæt krafa og henni verður eingöngu svarað með þjóðstjórn sem sameinast um brýnar aðgerðir til lausnar vanda atvinnulífs og heimila. Ef ríkisstjórnarflokkarnir eru ekki tilbúnir til slíks samstarfs sýnir það okkur að þar fylgir hugur ekki máli.

Höfundur er alþingismaður.




Skoðun

Sjá meira


×