Viðskipti innlent

Evrugengi Microsoft hefur sparað 2 milljarða

Við hjá Microsoft Íslandi erum himinlifandi með það hvernig til hefur tekist, því hugbúnaðargeirinn hefur haldið sjó síðustu misserin í erfiðu árferði.
Við hjá Microsoft Íslandi erum himinlifandi með það hvernig til hefur tekist, því hugbúnaðargeirinn hefur haldið sjó síðustu misserin í erfiðu árferði.
Microsoft Íslandi hefur samið við höfuðstöðvar Microsoft um áframhald svokallaðs evrugengis Microsoft fram til júníloka á þessu ári. Hljóðar samkomulagið um að viðskipti Microsoft við íslensk fyrirtæki, stofnanir og almenning verði gerð á evrugenginu 150 krónum. Þetta gengi hefur hingað til sparað 2 milljarða kr. í gjaldeyri.

Í tilkynningu segir að gert er ráð fyrir því að þetta verði síðasta framlenging evrugengisins og að frá 1. júlí muni viðskipti Microsoft aftur miðast við hefðbundið gengi krónunnar. Evrugengi Microsoft hefur verið við lýði í viðskiptum félagsins hér á landi frá því í desember 2008, en þessu fyrirkomulagi var komið á til að bregðast við algjöru frosti á hugbúnaðarmarkaðnum í kjölfar bankahrunsins og falls krónunnar.

Evrugengisverkefni Microsoft hér á landi hefur heppnast framar vonum, því það kom viðskiptum þeirra fjölmörgu íslensku hugbúnaðarfyrirtækja sem starfa daglega við sölu, þróun og þjónustu Microsoft-lausna af stað á nýjan leik eftir hrunið og hefur jafnframt sparað íslensku efnahagslífi umtalsverðan gjaldeyriskostnað. Samkvæmt útreikningum Microsoft Íslandi nemur gjaldeyrissparnaðurinn um tveimur milljörðum króna frá því að evrugengi Microsoft var fyrst sett á laggirnar.

Evrugengi Microsoft nálgast nú raungengi krónunnar, en miðað var við 145 krónur í viðskiptum Microsoft fyrstu þrjá mánuði ársins auk þess sem krónan hefur styrkst nokkuð að undanförnu. Fyrstu sjö mánuði verkefnisins var evrugengið 120 kr., á síðari helmingi ársins 2009 var það 130 kr. Evrugengi Microsoft er einstakt í sögu fyrirtækisins, því það hefur aldrei áður átt í viðskiptum við heila þjóð á öðru gengi en raungengi gjaldmiðils þess.

„Í upphafi þessa verkefnis vonuðum við að hrun krónunnar væri einungis tímabundið og evrugengið myndi brúa bilið á meðan, sem hefur heppnast. Það er ánægjulegt að sjá gengi krónunnar styrkjast þótt hægt gangi, enda er æskilegra að efnahagslífið í heild sé heilbrigt heldur en að nota þurfi sértækar lausnir á borð við þessa," segir Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi.

„Við hjá Microsoft Íslandi erum himinlifandi með það hvernig til hefur tekist, því hugbúnaðargeirinn hefur haldið sjó síðustu misserin í erfiðu árferði, meðal annars vegna þessara aðgerða. Um leið hafa viðskiptavinir Microsoft getað nýtt evrugengið til að endurskipuleggja og endurnýja hugbúnaðarlausnir sínar þannig að þær skili auknu hagræði í rekstri til lengri tíma."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×