Erlent

Clarkson móðgar múslima

Óli Tynes skrifar
Me sorry? Nah.
Me sorry? Nah.

Jeremy Clarkson hinn óvægni umsjónarmaður sjónvarpsþáttanna Top Gear er rétt einusinni búinn að móðga fólk. Að þessu sinni eru það múslimar.

Það var verið að tala um öryggi á vegum á mismunandi árstíðum og Clarkson sagði að það væri mesti misskilningur að veturnir væru hættulegastir.

Þvert á móti væru það sumrin þegar ungar stúlkur fönguðu athygli karlkyns ökumanna með léttum klæðaburði.

Hammond, meðstjórnandi, sagði þá að búrkaklæðnaður múslimakvenna gæti kannski bara talist öryggisbúnaður.

Clarkson hélt nú ekki. Hann sagði að hann hefði verið í leigubíl á dögunum og séð múslimakonu í búrka hrasa á götunni. Og það hefði greinilega sést að hún hefði verið í rauðum g-streng innanundir flíkinni.

Þetta taldi múslimaklerkur til marks um hatur hans á múslimum og fyrirlitningu á múslimakonum. Ef Clarkson bæðist ekki afsökunar gæti hann átt von á því að yngri múslimar réðust á hann.

Það er nú hægara sagt en gert að kreista afsökunarbeiðni út úr Jeremy Clarkson. Það vakti talsvert umtal á sínum tíma þegar hann kallaði Gordon Brown eineygan skoskan vitleysing.

Þegar hann var krafinn um afsökun sagði Clarkson; „Ég hef ekkert á móti Skotum. Og ef ég hef móðgað fatlað fólk þykir mér það leiðinlegt. En fjandinn hafi það að ég biðjist afsökunar á að kalla hann vitleysing."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×