Viðskipti innlent

Átti að vera tímabundið lán

Fjármálakreppan olli því að Landsbankinn sat uppi með milljarðalán til Nordic Partners vegna kaupa á danskri hótelkeðju.
 Fréttablaðið/teitur
Fjármálakreppan olli því að Landsbankinn sat uppi með milljarðalán til Nordic Partners vegna kaupa á danskri hótelkeðju. Fréttablaðið/teitur
Landsbankinn lánaði Nordic Partners 65,5 milljarða króna frá byrjun árs 2007 fram til loka september 2008. Þetta er 508 prósenta aukning á tæplega tveggja ára tímabili. Nordic Partners skuldaði bankanum 78,5 milljarða í bankahruninu.

Fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að lánin hafi verið að mestu vegna kaupa á hótel­keðju í Danmörku, þar á meðal D'Angleterre-hótelinu haustið 2007, og kaupa á matvælafyrirtækinu Hamé í Tékklandi í ársbyrjun 2008.

Landsbankinn var nær eini lánardrottinn Nordic Partners en heildarskuldir félagsins námu í kringum hundrað milljarða króna. Rannsóknarnefndin segir lánanefnd bankans hafa verið tilbúna til að taka þónokkra áhættu með veitingu láns upp á 12,1 milljarð króna til félagsins, sem var umfram verðmat á hótelunum. Lánið átti að vera tímabundið, eða þar til Royal Bank of Scotland endurfjármagnaði það. Það gekk ekki í gegn vegna kreppunnar.

Athafnamaðurinn Gísli Reynis­son stýrði Nordic Partners frá upphafi. Þegar hann lést í fyrravor flosnaði félagið upp og hefur skilanefnd Landsbankans unnið að því að taka hótelin yfir ásamt einkaþotuleigu félagsins. Aðrar eignir félagsins hafa skipt um hendur.- jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×