Viðskipti innlent

Miklu fleiri þarf að mennta í tæknigeira

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Nemar á Háskólatorgi Háskóla Íslands.
Nemar á Háskólatorgi Háskóla Íslands. Fréttablaðið/Vilhelm
Menntað fólk vantar til starfa á þeim sviðum þar sem fyrirséð er að vöxtur verði hvað mestur næstu ár. Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri Marorku, segir að nú sé tíminn til að mennta fólk í hönnun og tækni. „Með því að taka höndum saman við hið opinbera í endurmenntun ungs atvinnulauss fólks er unnið bæði á atvinnuleysi og skorti á hæfu starfsfólki,“ segir hann.

„Gífurlegar umbreytingar eru að eiga sér stað í atvinnulífinu. Almennt áttar fólk sig ekki á því að hugverkaiðnaðurinn stendur undir 21 prósenti af útflutningi þjóðarinnar,“ segir Jón Ágúst og segir nauðsynlegt að horfast í augu við að hér sé mikið af fólki með grunnþekkingu í atvinnulífi sem sé að hverfa. Hann var í gær á evrópskri ráðstefnu í Danmörku með kynningu á átaki iðnaðarins og hins opinbera við að búa til störf í hönnunar og tæknigeira.

„Danirnir sögðu við mig að við værum að fara í gegn um alveg sama feril og Danmörk gerði þegar landið hvarf frá landbúnaðaráherslum í að vera tækniland,“ segir Jón Ágúst, en á ráðstefnunni benti hann á að atvinnuleysi væri hér nú 7,6 prósent að meðaltali og 16,4 prósent meðal ungs fólks.

„Við notum 28 milljarða í atvinnuleysisbætur sem greiddar eru úr iðnaðinum og komum þess vegna með tillögu um samstarf við ríkisstjórnina um stórfellda endurmenntun á þessum hópi til þess að við getum komið honum inn í ný störf.“

Núna segir Jón Ágúst þjóðina færast frá því að vera sjávarútvegs- og frumframleiðsluþjóð yfir í að áhersla aukist á hönnun og tækni. „Fólkið sem er á atvinnuleysisskrá hefur ekki rétta bakgrunninn í þann geira. Við viljum endurmennta og endurþjálfa 15 þúsund manns og nota þessa 28 milljarða í nýtt nám og menntun þannig að þetta fólk geti gengið inn í ný störf sem til verða á markaði.“

Þá efast Jón Ágúst ekki um að vinna verði til handa fólkinu. „Á ári hverju verða að lágmarki til þúsund til tvö þúsund störf í þessum geira. Hér er hruninn ákveðinn iðnaður og við verðum að byggja upp nýjan og okkur er farið að sárvanta fólk í hugverkaiðnaðinn. Það er eitthvað skrýtið við samfélag sem vantar fólk í vinnu en er með marga á atvinnuleysisskrá.“

Gunnar Guðni Tómasson, forseti verkfræðideildar Háskólans í Reykjavík, tekur undir að hér sárvanti fólk menntað á ákveðnum sviðum tæknimenntunar.

Í uppsveiflu hafi verið hægt að sækja menntað fólk til útlanda, en eftir hrun sé landið tæpast samkeppnishæft. Sérstaklega segir hann skorta fólk menntað í véla- og tölvuverkfræði, byggingarverkfræðinga vanti ekki. „Við þurfum fólk í framleiðslutengdar tæknigreinar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×