Viðskipti innlent

Hlutur Margeirs í MP þynnist út

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Ragnar Þórir Guðgeirsson, stjórnarformaður MP banka.
Ragnar Þórir Guðgeirsson, stjórnarformaður MP banka.

Hlutur Margeirs Péturssonar þynnist út og ríkjandi hluthafar verða í minnihluta þegar nýir fjárfestar koma að MP banka, en bankann vantar þrjá milljarða króna til að uppfylla kröfur Fjármálaeftirlitsins. Evrópskir fjárfestar hafa sýnt áhuga á bankanum.

MP banki uppfyllir ekki kröfur um eiginfjárhlutfall sem Fjármálaeftirlitið hefur sett bankanum. Lágt eiginfjárhlutfall þýðir að bankar eru mjög viðkvæmir fyrir breytingum á virði eigna sinna. FME gerði í nóvember kröfur til MP banka um að styrkja eigið fé sitt og fékk ákveðna tímafresti til þess. Einn liður í því er aðkoma nýrra fjárfesta að bankanum, en stjórn bankans á nú í viðræðum við nýja fjárfesta.

Þið eruð í viðræðum við þrjá mismunandi hópa fjárfesta um að leggja bankanum til nýtt hlutafé. Þið hafið miðað við þrjá milljarða króna, hvers vegna ekki hærri fjárhæð? „Við höfum fyrst og fremst verið að horfa til þess hvaða fjármagn bankinn þarf til að tryggja stöðu sína og þetta miðast við það," segir Ragnar Þórir Guðgeirsson, stjórnarformaður MP banka.

Er þetta þá til þess að uppfylla kröfur FME? „Já, og það sem við teljum nauðsynlegt sjálf til að bankinn geti eðlilega vaxið og dafnað."

Þetta eru þrír mismunandi fjárfestahópar. Hvaða menn eru þetta? „Þetta eru fagfjárfestar við takmörkuðum hópinn við fagfjárfesta á þessu stigi og þetta eru innlendir og erlendir aðilar sem koma að þessu. Ég get ekki sagt meira á þessu stigi."

Mun ekki hlutafjáreign núverandi hluthafa bankans þynnast út við þessa hlutafjáraukningu? „Jú, við gerum ráð fyrir því að þeir verði í minnihluta," segir Ragnar Þórir. Þetta verða ákveðin tímamót því að stofnandi bankans, Margeir Pétursson, verður í minnihluta en bankinn leiðir nafn sitt af nafni hans. Að sögn Ragnars eru þetta evrópskir fjárfestar. Hann segir að þetta eigi að skýrast á næstu vikum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×