Viðskipti innlent

Metvelta með skuldabréf í Kauphöllini í september

Heildarviðskipti með skuldabréf námu 487 milljörðum kr. í síðasta mánuði sem samsvarar 22,1 milljarða kr. veltu á dag samanborið við 9,6 milljarða kr. veltu á dag í ágúst mánuði. Þetta er veltumesti mánuður ársins og voru viðskipti með skuldabréf í september nálægt því tvöfalt meiri en í þeim mánuði sem næst kemur (júní).

Þetta kemur fram í yfirliti frá Kauphöllinni. Þar segir einnig að heildarviðskipti með hlutabréf í septembermánuði námu 2.326 milljónum kr. eða 106 milljónum kr. á dag. Þessu til samanburðar var veltan með hlutabréf í ágústmánuði 935 milljónir eða 45 milljónir á dag. Mest voru viðskipti með bréf BankNordik eða 1.288 milljónir kr., Marels 725 milljónir kr. og Össurar 251 milljón kr.

Úrvalsvísitalan (OMXI6) lækkaði um 1,77 % milli mánaða og stendur nú í 920,1 stigi. Af atvinnugreinavísitölum hækkaði vísitala orkuvinnslu (IX10PI) mest eða 7,7%.

Á Aðalmarkaði Kauphallarinnar var Saga Capital með mestu hlutdeildina 34,7% (42,1% á árinu), Arion banki með 29,8% (12,9% á árinu) og Landsbankinn með 11,2% (10,4% á árinu).

Á skuldabréfamarkaði í septembermánuði var MP Banki með mestu hlutdeildina 29,3% (30,4% á árinu), Íslandsbanki með 18,8% (22,2% á árinu) og Landsbankinn með 18,1% (20,1% á árinu).








Fleiri fréttir

Sjá meira


×