Innlent

Erfið mál bíða umboðsmanns skuldara

Alþingi samþykkti á fimmta tímanum í dag lög um embætti umboðsmanns skuldara en því er ætlað mun viðameira hlutverk en Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna hefur haft með höndum. Þingflokksformaður VG segir erfið mál bíða hins nýja embættis.

Embættið verður reist á grunni Ráðgjafarstofunnar. Meðal þess sem breytist er að umboðsmaður skuldara á að gæta hagsmuna skuldara og bregðast við þegar brotið er á þeim. Þá á hann að hafa milligöngu um samskipti og samninga við lánardrottna með hagsmuni skuldara að leiðarljósi.

Frumvarpið var samþykkt með 45 samhljóða atkvæðum. 18 þingmenn voru fjarstaddir. Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, greiddi atkvæði með frumvarpinu en sagði að með því væri eingöngu verið leysa hluta vandans.

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, sagði brýnt að koma aðstoð við skuldara í eins markvissan farveg og kostur er.

„Ef alhæfa á um lagabreytingar dagsins þá ganga þær út á að færa úrlausn erfiðara skuldamála í ríkari mæli í farveg samninga og samstarfs og beina úrlausnum eins og kostur er úr dómstólafarvegi og þess í stað að freista þess að ná lausn við samningaborð. Þetta eru erfið mál og mikið starf mun bíða hins nýja embættis umboðsmanns skuldara," sagði Guðfríður Lilja.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×