Viðskipti innlent

Óvarlegt að álykta að kreppunni sé lokið

Þrátt fyrir að lítilsháttar hagvöxtur hafi mælst hérlendis tvo ársfjórðunga í röð er óvarlegt að álykta að kreppunni sé lokið. Raunar eru vísbendingar um að hagvöxturinn verði aftur neikvæður á öðrum ársfjórðungi þessa árs.

Það sem veldur því að hagvöxtur mældist 0,6% milli fjórða ársfjórðungs síðasta árs og þess fyrsta í ár er aukin birgðastaða í landinu. Er þá einkun átt við framleiddar en óseldar birgðir af sjávarafurðum. Hagvöxtur á ársfjórðungnum þar á undan mældist 0,4% en þar gætti alfarið áhrifa af kaupum á skipi og flugvél til landsins.

Jón Bjarki Bentsson sérfræðingur hjá greiningu Íslandsbanka segir að af þessum sökum sé alls ekki hægt að álykta sem svo að kreppunni sé lokið á Íslandi. Hvað fyrrgreinda birgðastöðu varðar muni hún jafna sig út í tölunum yfir næsta ársfjórðung.

„Það sem er jákvætt í tölum Hagstofunnar er hvað einkaneyslan dregst lítið saman milli ársfjórðunganna," segir Jón Bjarki. „Slíkt rímar við aðrar tölur um að botni hafi verið náð í neyslu heimilanna."

Jón Bjarki bendir hinsvegar á að nú séu vísbendingar um að einkaneyslan sé að dragast saman á nýjan leik. Því séu töluverðar líkar á að við næstu mælingu komi fram neikvæður hagvöxtur að nýju eins og verið hefur allar götur frá hruninu haustið 2008.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×