Viðskipti innlent

Greining: Litlar líkur á að gjaldeyrishöft hverfi næstu árin

Greining Arion banka telur að litlar líkur séu á því að gjaldeyrishöftunum verði aflétt á næstu árum. Þetta kemur fram í Markaðspunktun greiningarinnar þar sem fjallað er um útgáfu ríkisbréfa.

Greiningin segir að útgáfa ríkistryggðra skuldabréfa tók gríðarlegan kipp í kjölfar efnahagshrunsins og óx stærð þessara skuldabréfaflokka um ríflega 300 milljarða kr. á árunum 2008-2009. Lang stærsti hlutinn af þessari viðbótar útgáfu var í formi óverðtryggðra ríkisbréfa.

Nettó aukning í útgáfu ríkistryggðra bréfa og skuldabréfa sveitarfélaga (LSS) mun hinsvegar einungis nema um 35 milljörðum kr. á árinu 2010. Þetta er í raun álíka mikið og árleg útgáfa var að jafnaði á árunum 2000-2007. (Með ríkistryggðum skuldabréfum er átt við óverðtryggð og verðtryggð ríkisbréf, ríkisvíxla og verðtryggð skuldabréf Íbúðalánasjóðs.)

Á sama tíma er töluverð eftirspurn eftir skuldabréfum enda eru aðrir eignaflokkar en skuldabréf og innlán að skornum skammti vegna gjaldeyrishaftanna. Framboð skuldabréfa verður enn fremur lítið í samanburði við fjárfestingargetu lífeyrissjóðanna sem greiningin áætlar að nemi um 100 milljörðum kr. á ári.

Greining dregur síðan fram það helsta sem gæti raskað þeirri mynd sem hér er dregin upp af takmörkuðu framboði.

„Ef gjaldeyrishöftum yrði aflétt myndi framboð skuldabréfa á eftirmarkaði aukast ef erlendir aðilar losuðu um stöður og erlendir fjárfestingarkostir myndu opnast fyrir íslendingum á ný. Við teljum hinsvegar afar litlar líkur að höftunum verði aflétt á allra næstu árum," segir í Morgunkorninu.

„Það myndi einnig raska þessari mynd ef erlend lánafyrirgreiðsla (þ.m.t. gjaldeyrislán frá vinaþjóðum og AGS) yrði lokuð Íslandi um langt skeið því þá þyrftu bæði ríkið og íslensk fyrirtæki að reiða sig á innlenda fjármögnun í meiri mæli.

Í þriðja lagi ber að hafa í huga að um 100 milljarðar kr. af ríkisbréfum (um 70 milljarða kr. íbúðarbréf og 30 milljarða kr. ríkisbréf) sitja fastir í Seðlabanka Lúxemborgar.

Þessi bréf gætu fyrr eða síðar endað aftur á markaði og þannig í raun komið fram sem aukið framboð skuldabréfa. Unnið að lausn málsins þar sem stefnt er að því að losa um bréfin. Ýmsir möguleikar eru fyrir hendi varðandi sölu bréfanna og því óvíst hve mikil áhrifin yrðu á skuldabréfamarkaðinn."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×