Lífið

Kóngurinn og prinsessan taka við pókerklúbbnum Casa

Dabbi Rú segir andrúmloftið á pókerstaðnum Casa mun vinalegra en áður.
Dabbi Rú segir andrúmloftið á pókerstaðnum Casa mun vinalegra en áður. Fréttablaðið/Valli
„Við komum með okkar móral inn í þetta og staðurinn er orðinn mun vinalegri en hann var," segir pókerkóngurinn Davíð Rúnarsson, eða Dabbi Rú.

Dabbi og Valur Heiðar Sævarsson hafa tekið við pókerstaðnum Casa í Aðalstræti. Dabbi segir þá félaga boða miklar breytingar á staðnum, bæði útlitslegar og félagslegar. „Við erum búnir að teppaleggja og kaupa fína og fagra muni þannig að staðurinn er orðinn heimilislegri en áður," segir hann.

„Það er allt önnur stemning í húsinu. Ég setti mér takmark að breyta henni innan tveggja mánaða, en það er strax annað andrúmsloft í húsinu."

Dabbi er ánægður með samstarfið við Val, sem gerði það gott á árum áður með hljómsveitinni Buttercup. „Ég gleðst yfir því að hafa prinsessuna mér við hlið," segir hann. „Svo ég tali ekki um það að ég hafi skotið Butter-gamla upp á stjörnuhimininn á ný. Ég á hann skuldlaust í dag. Meira dót gerði það á sínum tíma en Dabbi Rú gerir þetta í dag."

Karlmenn eru meirihluti þeirra sem spila póker í dag, en Dabbi segir hann og Val reyna að breyta því. „Þær hafa alltaf verið að detta aðeins í mótin en við höldum líka sérstök píupókermót," segir Dabbi í laufléttum dúr. „Við erum jafnréttissinnar, ég og Valur. Stelpur geta gert meira en að vaska upp og búa um rúmin. Þær geta alveg prófað að spila póker - við munum hirða af þeim peninginn en þær geta verið með."

- afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.