Viðskipti innlent

50% hækkun álverðs styrkir stöðu Landsvirkjunar

Fimmtíu prósenta hækkun álverðs á síðasta ári hefur stórbætt stöðu Landsvirkjunar. Búast má við að hagnaður félagsins á nýliðnu ári verði á annan tug milljarða króna og eiginfjárstaðan verði orðin betri en var áður en ráðist var í smíði Kárahnjúkavirkjunar.

Heimsmarkaðsverð á áli hefur afgerandi áhrif á afkomu Landsvirkjunar en einnig á mat á verðmæti fyrirtækisins, þar sem gildandi raforkusamningar við álfyrirtækin eru metnir til framtíðarvirðis. Álverð var um 1500 dollarar tonnið í upphafi árs en í lok árs var það komið upp í 2.240 dollara tonnið. Hækkunin á árinu var þannig gríðarleg eða um 50 prósent og raunar hefur verðið enn hækkað á fyrstu dögum ársins og var í dag komið yfir 2.400 dollara í langtímasamningum.

Stórfelld hækkun á álverði hefur verulega þýðingu fyrir þjóðarbúið en 38 prósent af útflutningstekjum Íslands komu frá orkufrekum iðnaði á nýliðnu ári. Þetta eru því einhver jákvæðustu tíðindi sem íslenskt efnahagslíf hefur fengið um langt skeið, og ættu einnig að kæta eigendur Orkuveitu Reykjavíkur og HS Orku, sem sömuleiðis hafa umtalsverðar tekjur af orkusölu til álvera.

En það er fleira jákvætt að gerast í rekstri Landsvirkjunar. Lán fyrirtækisins bera fljótandi vexti og þeir hafa snarlækkað á undanförnum misserum, farið úr 4-5 prósentustigum niður í 1-2 prósentustig, en þessi vaxtalækkun þýðir 7 til 8 milljarða króna sparnað í vaxtakostnaði á ári.

Ársreikningar Landsvirkjunar verða væntanlegar birtir í mars og áætla sérfræðingar, sem fréttastofan ræddi við, að þeir muni sýna verulegan hagnað, líklega upp á annan tug milljarða króna. Samhliða góðri afkomu hefur eiginfjárstaða fyrirtækisins styrkst. Eiginfjárhlutfallið fór lægst í 26 prósent en spáð er að það fari nú yfir 32 prósent. Það þýðir að hlutfallið er komið yfir það sem það var áður en Landsvirkjun réðst í smíði Kárahnjúkavirkjunar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×