Viðskipti innlent

Aldrei fleiri kaupmálar verið gerðir

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar
Aldrei hafa fleiri kaupmálar verið gerðir eins og strax eftir bankahrunið. Ekki verður hægt að rifta þeim öllum þrátt fyrir að fyrningarfrestur hafi verið lengdur.

Við kaupmála verður til séreign en það er eign sem annað hvort hjóna á og tilheyrir því ekki sameiginlegu búi þeirra. Kröfuhafar geta ekki gengið að séreignum maka skuldarans auk þess sem þær eru undanþegnar skiptum ef til skilnaðar kemur. Í gögnum um þróun kaupmála frá Credit Info sést að frá árinu 2004 hafa að jafnaði verið gerðir í kringum 250 kaupmálar á ári. Hinsvegar varð nokkur breyting á strax eftir bankahrunið því aldrei hafa fleiri kaupmálar verið gerðir eins og á fjórða ársfjórðungi ársins 2008, eða eitthundrað og fimm talsins. Brynjar Níelsson, lögmaður, segir algengt að hjón vilji hafa þennan háttinn á ef annar makinn er skuldugur eða í áhætturekstri. Þessi leið hafi líka verið farin til að koma eignum undan.

Nýlega var lögum um gjaldþrotaskipti breytt á þann veg að hægt verður að rifta færslu eigna til skyldamenna allt að fjögur ár aftur í tímann í stað tveggja. Brynjar segir að ekki verði hægt að rifta kaupmálum í öllum tilvikum þrátt fyrir að frestur sé ekki liðinn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×