Viðskipti innlent

Fjórir lykilstjórnendur Byrs farnir frá sjóðnum

Sigríður Mogensen skrifar
Fjórir lykilstjórnendur Byrs eru farnir frá sparisjóðnum. Þeir voru eigendur félagsins Húnahorns, sem átti stofnfjárbréfin í Byr sem Exeter keypti. Viðskiptin áttu sér stað skömmu eftir bankahrun en sérstakur saksóknari rannsakar þau.

Skömmu eftir bankahrunið 2008 keypti félag að nafni Exeter stofnfjárbréf í Byr af MP banka og fleiri aðilum fyrir rúman milljarð króna. Sum bréfanna hafði MP banki eignast í gegnum veðköll en upprunalegir eigendur þeirra voru meðal annars sparissjóðsstjóri Byrs og aðrir lykilstjórnendur ásamt fyrrverandi starfsmönnum.

Byr sá um að fjármagna kaupin á bréfunum með því að veita Exeter rúmlega eins milljarða yfirdráttarheimild. Þegar viðskiptin áttu sér stað var markaður með stofnfjárbréfin lokaður, enda mikið óvissuástand á íslenskum fjármálamarkaði á þessum tíma.

Sérstakur saksóknari rannsakar málið. Um þrjátíu yfirheyrslur hafa átt sér vegna málsins og húsleitir gerðar.

Félag að nafni Húnahorn var eigandi hluta stofnfjárbréfanna sem Exeter keypti. Eigendur þess voru meðal annars Ragnar Guðjónsson, sparissjóðsstjóri Byrs, Atli Örn Jónsson, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs og útibússtjórarnir Auður Arna Eiríksdóttir og Bjarni Þór Þórólfsson. Þau munu nú öll vera farin frá sparissjóðnum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×