Viðskipti innlent

AGS: Afnám gjaldeyrishafta ekki á dagskrá í bráð

Í fréttatilkynningu sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) sendi út í kjölfar endurskoðunarinnar segir að í ljósi þess hversu óljóst sé hvenær lán frá Norðurlöndunum og Póllandi berist verði frekari afnám hafta á útflæði fjármagns að bíða enn um sinn.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að eftir sem áður ríkir því óvissa um hvenær næstu skref verða stigin í afnámi gjaldeyrishafta en eins og kunnugt er hafa bæði Seðlabankastjóri og aðstoðarseðlabankastjóri Seðlabanka Íslands lagt mikla áhersla á afnám hafta að undanförnu. Mögulegur líftími haftanna er reyndar alltaf að lengjast, en í fréttatilkynningunni kemur fram að efnahagsáætlun AGS og stjórnvalda hafi nú verið framlengd til ágústloka 2011.

Samkvæmt áætlun AGS, Seðlabankans og íslenskra stjórnvalda um afnám gjaldeyrishafta mun afléttingin fara fram í þremur þrepum og á síðasta skrefinu að vera lokið áður en áætlun AGS og stjórnvalda lýkur.

Á síðasta fundi peningastefnunefndar Seðlabankans kom það fram að ráðlegra væri að hafa vexti bankans í hærri kantinum þegar næstu skref verða stigin í afnámi haftanna. Því er ljóst að það svigrúm sem Seðlabankinn hefur til að lækka vexti takmarkast nokkuð af þeim takti sem verður í áætlun um frekari afnám hafta. Í fréttatilkynningu AGS segir jafnframt að áherslan í peningamálum er enn á gengisstöðugleika og að meiri áhersla verði lögð á að styrkja gjaldeyrisvaraforðann nú en áður til að geta mætt auknum þrýstingi til veikingar krónunnar ef til þess komi.

Seinna í þessari viku kemur út ítarleg skýrsla sendinefndar AGS til Íslands sem gefin er út í tengslum við aðra endurskoðun, og athyglisvert verður að sjá hvort farið verði nánar út í þessa sálma í þeirri skýrslu, að því er segir í Morgunkorninu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×