Viðskipti innlent

Rauðsól dæmd til að greiða 160 milljónir

Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í dag að Rauðsól ehf., sem er eigandi 365 miðla, sem aftur á Vísir.is og Stöð 2, skyldi greiða þrotabúi Íslenskrar afþreyingar ehf. 160 milljónir. Málið snýst um sölu Íslenskrar afþreyingar á 365 miðlum til Rauðsólar árið 2008 en aðaleigandi Rauðsólar er Jón Ásgeir Jóhannesson.

Það var þrotabústjóri Íslenskrar afþreyingar sem vildi rifta samningi um að Rauðsól fengi um 155 milljón króna afslátt af kaupverði hluta í 365 miðlum.

Rauðsól átti að leggja fram einn og hálfan milljarð en kaupverðið voru 5.9 milljarðar. Rauðsól lagði hinsvegar ekki fram einn og hálfan milljarð eins og samið var um heldur 1340 milljónir króna. Um var að ræða afslátt sem Rauðsól átti að fá.

Þessu mótmælti þrotabústjórinn og sýndi fram á að sömu lykilstjórnendur sátu í stjórn Íslenskrar afþreyingar og Rauðsólar þegar viðskiptin áttu sér stað. Því leit hann svo á að afslátturinn væri í raun og veru gjafagerningur.

Á þau rök féllst Héraðsdómur og dæmir því Rauðsól til þess að greiða afsláttinn upp á 160 milljónir til baka.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×