Viðskipti innlent

Krónan ekki verið jafnsterk gagnvart evrunni í rúmt ár

Gengi krónunnar gagnvart evru heldur áfram að styrkjast og kostar evran 162,4 krónur á innlendum millibankamarkaði þegar þetta er ritað (kl. 11:30). Um áramótin stóð evran í 179,9 krónum og hefur krónan því styrkst um 10,7% gagnvart evru frá þeim tíma, og í raun hefur krónan ekki verið jafn sterk gagnvart evru í rúmt ár.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að krónan hefur einnig verið að sækja í sig veðrið gagnvart sterlingspundinu, Þegar þetta er ritað kostar pundið 190,4 krónur og hefur krónan styrkst um ríflega 6% gagnvart pundi frá ársbyrjun.

„Teljum við, líkt og undanfarið, líklegt að styrking krónunnar eigi rætur að rekja til aukins gjaldeyrisinnflæðis vegna afgangs af vöru- og þjónustuviðskiptum og ólíklegt að inngrip Seðlabankans skýri styrkinguna nú enda hefur bankinn haldið sig fjarri gjaldeyrismarkaði allt frá því í byrjun nóvember á síðasta ári," segir í Morgunkorninu.

„Á sama tíma og verð á sterlingspundum og evru hefur lækkað í krónum talið þá hefur verð á Bandaríkjadollar sem og japönskum jenum hækkað. Nú í morgun stóð Bandaríkjadollar í 132,5 krónum og hefur hækkað um rúm 6% í krónum talið frá áramótum. Í raun hefur krónan ekki verið jafn veik gagnvart dollar síðan í desember 2008.

Svipaða sögu er að segja um japönsk jen og hefur krónan ekki verið jafn veik gagnvart jenum síðan í janúar 2009. Þarf nú að reiða fram 5% fleiri krónur fyrir jenin en í byrjun árs, en jenið kostar nú rúmlega 1,42 krónur."

Við þetta má svo bæta að gengisvísitalan er svo til óbreytt það sem af er degi þannig að styrkingin og veikingin gagnvart þessum ólíku gjaldmiðlum í dag jafna hvora aðra út.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×