Viðskipti innlent

Kaupandi Skeljungs maki stjórnarformannsins

Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir olíudrottning.
Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir olíudrottning.
Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir, sem  tilkynnt var um að hafi keypt 49% hlut í  Skeljungi í dag, er aðeins 33 ára gömul en áður var hún framkvæmdarstjóri fjárstýringu Straums-Burðaráss.

Maki Svanhildar er Guðmundur  Þórðarsonar sem er stjórnarformaður Skeljungs. Sjálf er Svanhildur stjórnarmaður í Skeljungi. Þau hafa áður sinnt viðskiptum í Danmörku með Birgi Þór Bieltvedt fjárfesti.  

Þau keyptu 51% hlut í Skeljungi ásamt Birgi Þór í lok 2008. Birgir Þór fjárfesti meðal annars með Baugi Group í Magasin Du Nord í Danmörku fyrir um sex árum síðan.

Þau þrjú hafa víða komið við í íslensku viðskiptalífi.

Svanhildur Nanna er  viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og  með meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum og  markaðsfræðum.Hún er fædd árið 1977.

Hún bauð sig fram í stjórn Byr síðasta sumar ásamt hópi fólks þegar mikil barátta var um yfirráð yfir sparisjóðnum. Tveir listar voru í framboði og fékk hennar listi 48% atkvæða. Þeir sem réðu í Byr héldu velli.

Svanhildur hefur yfir 10  ára reynslu af störfum innan  fjármálageirans. Á árunum 1999-2002  starfaði hún hjá FBA (síðar  Íslandsbanka-FBA), fyrst á sviði  markaðsviðskipta og síðar tók hún við  starfi forstöðumanns netviðskipta  bankans. Á árunum 2002-´05 starfaði  Svanhildur hjá KB banka og gegndi starfi  forstöðumanns fjármögnunar.

Árið 2005  gekk hún til liðs við Straum-Burðarás og  tók við starfi framkvæmdastjóra  fjárstýringar sem hún gegndi fram á  síðari hluta árs 2007.

Maðurinn hennar Guðmundur var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Straums-Burðaráss fjárfestingabanka til ársins 2007. Þá keypti hann ásamt Birgi Þór ráðandi hlut í danska félaginu Property Group A/S. Markmið félagsins var að afla fjárfestingartækifæra fyrir fjárfesta í fasteignaviðskiptum. Markmið þess var einnig að kaupa og selja fasteignir, en markaðssvæði þess var í  Skandinavíu og í nærliggjandi löndum, einkum Þýskalandi og í Eystrasaltslöndum.

Árið 2008 keyptu þeir saman 50% hlutafjár í danska tískuhúsinu Metropol.

Birgir Þór er öllu þekktari en Guðmundur og Svanhildur Nanna. Hann hafði yfirumsjón með uppbyggingu Domino's Pizza á Íslandi frá 1993 og flutti svo til Danmerkur árið 1997 til að endurtaka leikinn.

Árið 2004 tók hann þátt í yfirtöku á hinu danska Magasin Du Nord ásamt Straumi Burðarás fjárfestingabanka og Baugi Group.

Nýjustu tíðindin af Birgi Þór er að hann var ráðinn til að stýra Domino's í þýskalandi.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×