Viðskipti innlent

Slitastjórnin höfðar hugsanlega mál gegn stjórnendum Kaupþings

Slitastjórn Kaupþings er að kanna hvort forsendur séu fyrir skaðabótamáli gegn fyrrverandi stjórnendum bankans, meðal annars Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra og Sigurði Einarssyni, fyrrverandi stjórnarformanni. Beðið er eftir hvort niðurstaða rannsóknar endurskoðunarfyrirtækisins PriceWaterhouseCoopers leiði í ljós hvort þeir hafi brotið hlutafélagalög.

Endurskoðunarfyrirtækið var fengið til að rannsaka öll viðskipti sem Kaupþing gerði við stjórnendur, starfsmenn og tengda aðila. Rannsóknin hófst síðasta haust en hún er viðamikil þar sem farið er yfir bókhald bankans og löggerninga allt að tvö ár aftur í tímann. Upphaflega var gert ráð fyrir að niðurstaða myndi liggja fyrir í lok janúar en líklegt þykir að einhver töf verði á henni sökum þess hve umfangsmikil rannsóknin er.

Samkvæmt heimildum fréttastofu mun slitastjórn bankans leggja þessar niðurstöður til grundvallar þeirri ákvörðun að hefja skaðabótamál gegn fyrrverandi stjórnendum bankans. Slíkt mál yrði meðal annars höfðað á þeirri forsendu að þeir hefðu ekki farið eftir hlutafélagalögum og því ekki gætt hagsmuna eigenda bankans.

Farið verður yfir einstök mál og skoðað hvort að það hafi verið fyrirséð í einhverjum tilvikum að viðskiptavinir, sem fengu háar lánveitingar, gætu ekki staðið í skilum. Auk þess sem farið verður yfir hvort lánin hafi verið með nægjanlegum tryggingum. Þá mun einnig verða skoðað hvort að farið hafi verið eftir lánareglum bankans.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×