Viðskipti innlent

Íslandsbanki býður framkvæmdalán á sérstökum kjörum

Íslandsbanki tekur þátt í hvatningarátaki stjórnvalda og atvinnulífsins Allir vinna sem nýverið var hleypt af stokkunum. Bankinn mun bjóða einstaklingum í viðskiptum við bankann hagstæð framkvæmdalán á sérstökum kjörum.

Í tilkynningu segir að engin lántökugjöld verði af þessum lánum og 5,75% óverðtryggðir vextir eru í boði (kjör sambærilegra skuldabréfalána eru í dag 9,25%). Lánstími allt að fimm ár. Umsóknarfrestur til 30. september 2010.

Hámarkslán er 1,5 milljónir króna og er veitt gegn veði til viðskiptavina með trausta viðskiptasögu. Lán allt að 750 þúsund krónum eru veitt án veðs en að öðru leiti á sömu forsendum. Þessi lán eru veitt til framkvæmda eða endurbóta á fasteignum, lóðum eða sumarhúsum. Afgreiðsla lánsins byggir á reikningum fyrir vöru- eða þjónustukaupum fram til 30. september.

„Við höfum lengi talað fyrir því að allir þurfi að leggjast á eitt við að koma hjólum atvinnulífsins aftur á fullt skrið. Við fögnum þessu átaki stjórnvalda og atvinnulífs sem við teljum jákvætt skref í þá átt. Við erum ánægð með að taka þátt í átakinu og okkar framlag eru lán á afar hagstæðum kjörum til góðra verka," segir Una Steinsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×