Viðskipti innlent

Gengi hluta í Marel hefur hækkað um 150% frá botninum

Theo Hoen forstjóri Marel.
Theo Hoen forstjóri Marel.

Gengi hlutabréfa í Marel náði 100 kr. á hlut í vikunni en gengi félagsins hefur hækkað stöðugt frá því að það náði botni í apríl 2009 þegar gengið fór niður í um 40 kr. á hlut, en það var um svipað leiti og erlendir markaðir náðu botni. Gengið hefur reyndar hækkað um 150% frá botni en hafði áður fallið um 60%.

Fjallað er um málið í Markaðspunktum greiningar Arion banka. Þar segir að gengi Marel hf. er í dag á svipuðum slóðum og það var þegar best lét á mörkuðum og hefur því náð fyrri hæðum.

Í gær fóru fram viðskipti með um 7% hlut í Marel hf. að upphæð um 4,7 ma.kr. þar sem verð á hlut var 95 krónur. Seljandinn er Horn fjárfestingarfélag ehf. en félagið er í eigu Landsbankans og heldur utan um hlutabréfaeignir bankans. Eftir viðskiptin á Horn rétt undir 14% hlut í Marel og er ennþá næststærsti hluthafi félagsins. Eyrir Invest er eftir sem áður langstærsti hluthafi Marel og á um 32% hlut.

Með þessum viðskiptum losar Landsbankinn um töluverðan hlut sinn í félaginu, sem verður að teljast jákvætt skref enda mikið búið að ræða eignarhald bankanna á fyrirtækjum og hversu brýnt það er að bankarnir komi þessum fyrirtækjum af efnahagsreikningum sínum sem fyrst," segir í Markaðspunktunum.

„Þar að auki kemst mögulega meira flot á hlutabréf í Marel eftir þessi viðskipti þar sem kaupendurnir eru fleiri en einn, þó þeir séu líklegast flestir lífeyrissjóðir gæti verið að þeir hafi ekki allir sömu skoðunina þegar fram í sækir og því myndist meiri hreyfing á bréfunum en ella."

Þá segir að Lífeyrissjóður Verzlunarmanna hefur verið á kauphliðinni í þessum viðskiptum og aukið lítillega við sig í félaginu, kominn í 5,8%, en ekki liggur fyrir hverjir aðrir komu að þeim.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×