Erlent

Tífalda verðlaunafé fyrir Mladic

Veggjakrot í Belgrad. Kona gengur fram hjá mynd af Ratko Mladic í Belgrad í Serbíu. 
Fréttablaðið/AP
Veggjakrot í Belgrad. Kona gengur fram hjá mynd af Ratko Mladic í Belgrad í Serbíu. Fréttablaðið/AP

Ríkisstjórn Serbíu hefur lagt meira fé til höfuðs Bosníuserbanum og stríðsglæpamanninum Ratko Mladic. Upphæðin var tífölduð, fór úr einni í tíu milljónir evra.

Mladic er sakaður um að hafa skipulagt fjöldamorð á allt að 8.000 múslímskum drengjum og mönnum frá Srebrenica árið 1995 og fyrir þriggja ára umsátur um Sarajevo, höfuðborg Bosníu. Ríkisstjórnin lofaði einnig einni milljón evra í verðlaun fyrir handtöku uppreisnarleiðtoga Króatíuserba, Gorans Hadzic. Áður var lofað 250 þúsund evrum. Fé var fyrst lagt til höfuðs mönnunum árið 2007, en báðir eru taldir vera í felum í Serbíu. Bandaríkin hafa þegar lofað fimm milljónum Bandaríkjadala (560 milljónum króna) fyrir upplýsingar sem myndu leiða til handtöku Mladic. Fyrr í þessari viku sagði Evrópusambandið að Serbía yrði að draga þessa tvo stríðsglæpamenn fyrir dóm ef landið vildi einhvern tímann gerast aðili að sambandinu. - óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×