Viðskipti innlent

Microsoft hefur gefið út Office 2010 hugbúnaðinn

„Þetta eru spennandi tímar fyrir Microsoft, því það er ekki langt síðan við gáfum út nýtt stýrikerfi, Windows 7, sem hlaut einstaklega góðar viðtökur. Sama hugmyndafræðin var notuð við þróun Office 2010 og því erum við þess fullviss að notendur munu einnig taka Windows 2010 opnum örmum,"segir Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi.
„Þetta eru spennandi tímar fyrir Microsoft, því það er ekki langt síðan við gáfum út nýtt stýrikerfi, Windows 7, sem hlaut einstaklega góðar viðtökur. Sama hugmyndafræðin var notuð við þróun Office 2010 og því erum við þess fullviss að notendur munu einnig taka Windows 2010 opnum örmum,"segir Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi.

Microsoft hefur gefið út nýjustu útgáfu Office-skrifstofuhugbúnaðarins, Microsoft Office 2010. Þar með er komin út ný kynslóð algengustu skrifstofuforrita sem notuð eru í heiminum; forrita á borð við ritvinnsluforritið Word, töflureikninn Excel, glæruforritið PowerPoint og samskiptaforritið Outlook, svo nokkur séu nefnd.

Í tilkynningu segir að meðal helstu nýjunga í þessari útgáfu Office er áhersla Microsoft á að forritin, og vinna við þau, sé ekki einungis bundin við þá tölvu sem þau eru sett upp á, heldur nýtist Office ekki síður á farsímum og öðrum smátólum og virki jafnframt í netvöfrum. Þannig má með Office Web Apps, sem er alger nýjung í Office 2010, opna, vinna með Word, Excel, Powerpoint og One Note skjöl óháð því hvort Office 2010 sé uppsett á viðkomandi tölvu eða ekki. Aðgangur að Office Web Apps er án endurgjalds - það eina sem þarf er ókeypis skráning hjá þjónustunni Windows Live.

Meðal annarra nýjunga í Office 2010 eru innbyggð myndvinnslutól í Word og PowerPoint, sem gera notendum kleift að sníða til myndir sem settar eru inn í skjölin. Með nýjum eiginleika í PowerPoint má nú á einfaldan hátt „senda út" glærukynningu í gegnum netið, þannig að sá sem flytur kynninguna þarf ekki að vera staddur á sama stað og áhorfendurnir. Umtalsverðar endurbætur á Outlook-samskiptaforritinu gera umsýslu með tölvupóst einfaldari auk þess sem hægt er að tengja það við vinsælar samfélagsvefsíður.

Microsoft hefur lagt mikla áherslu á að þróa hugbúnaðinn í samvinnu við viðskiptavini og notendur til að hann taki sem mest mið af óskum og þörfum þeirra sem nota hann daglega. Yfir níu milljónir notenda um heim allan tóku þátt í Beta-prófunum Office 2010 og hópvinnulausninni SharePoint 2010, sem eru þrefalt fleiri notendur en tóku þátt í sambærilegum prófunum á Office 2007 á sínum tíma.

„Þetta eru spennandi tímar fyrir Microsoft, því það er ekki langt síðan við gáfum út nýtt stýrikerfi, Windows 7, sem hlaut einstaklega góðar viðtökur. Sama hugmyndafræðin var notuð við þróun Office 2010 og því erum við þess fullviss að notendur munu einnig taka Windows 2010 opnum örmum. Það sem mér finnst áhugaverðast við þessa útgáfu er að með henni sér almenningur sennilega í fyrsta skipti í verki áherslu Microsoft á að lausnirnar okkar nýtist til fullnustu á þremur mismunandi skjáum: Á tölvunni, í símanum eða smátækinu og í netvafranum. Um leið sýnir Office Web Apps hvernig Microsoft er farið að veita þjónustu í gegnum tölvuský í auknum mæli, og það er þróun sem er bara rétt að byrja," segir Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi.

Hinn nýi Office-pakki er eins og fyrri útgáfur hannaður bæði með heimilis- og fyrirtækjanotkun í huga og geta notendur valið um nokkrar samsetningar eftir þörfum sínum. Microsoft Office 2010 fæst hjá fjölmörgum söluaðilum Microsoft-hugbúnaðar um land allt.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×