Viðskipti innlent

Meiri verðbólga breytir ekki vaxtalækkunarferli

Greining Íslandsbanka tekur að þótt hækkun vísitölu neysluverðs í maí hafi reynst meiri en vænst var breyti það ekki miklu um verðbólguhorfur eða vaxtalækkunarferli Seðlabankans næsta kastið.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningarinnar. Þar segir að hækkun upp á 0,41% hafi verið meiri hækkun en vænst hafði verið. Spár lágu á bilinu 0,1% - 0,25% og spáði greiningin 0,2% hækkun.

Morgunkorninu segir að hækkunin nú er að mestu leyti til komin vegna tímabundinna áhrifa sem að hluta munu ganga til baka strax í júní að mati greiningarinnar.

„Þá er hjöðnun ársverðbólgunnar eftir sem áður veruleg í þessum mánuði, og má benda á að verðbólga að frátöldum skattaáhrifum er nú 6,1%," segir í Morgunkorninu.

„Peningastefnunefnd Seðlabankans horfir fyrst og fremst til verðbólgu á slíkan kvarða við vaxtaákvarðanir sínar. Eftir sem áður ætti því nefndin að hafa af nógu að taka þegar kemur að því að tína til rök fyrir frekari vaxtalækkun þann 23. júní, sér í lagi ef krónan heldur sjó fram að þeim tíma eftir ríflega 3% styrkingu í maí."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×