Viðskipti innlent

Ísland með næst hæstu stýrivextina

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Stýrivextir hafa lækkað verulega víða frá því að fjármálakreppan skall á. Þeir eru í mörgum löndum í sögulegu lágmarki. Nú síðast tilkynntu bæði Seðlabanki Ungverjalands og Seðlabanki Rúmeníu um lækkun stýrivaxta og í báðum þessum tilfellum hafa stýrivextir aldrei verið lægri en nú. Í Ungverjalandi voru stýrivextir lækkaðir úr 5,75% í 5,5% en í Rúmeníu úr 7% í 6,5%. Eftir sem áður eru stýrivextir í þessum löndum með þeim hæstu sem tíðkast á meðal ríkja með þróaðan fjármálamarkað.

Fjallað er um stýrivexti í Morgunkorni Íslandsbanka í dag. Þar segir að stýrivextir hér á landi hafi einnig verið lækkaðir allverulega í þessari kreppu. Nemur lækkunin 9 prósentustigum á einu ári. Stýrivextirnir eru þó enn afar háir hér á landi í alþjóðlegum samanburði, en þeir eru nú 9%. Aðeins eitt annað ríki með þróaðan fjármálamarkað er með hærri stýrivexti en Ísland. Það er Úkraína, en þar eru vextir 10,25%. Þriðju hæstu vextir í heiminum eru í Brasilíu þar sem vextir eru 8,75% en fast á hæla Brasilíu fylgir Rússland með vexti upp á 8,25%.

Stýrivextir á evrusvæðinu eru nú 1%, 0,5% í Bretlandi, 0,25% í Bandaríkjunum, Sviss og Svíþjóð og 0,1% í Japan.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×