Viðskipti innlent

Gylfi segir að Icesave seinki líklega endurskoðun AGS

Gylfi Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra segir að líklega muni Icesave málið seinka annarri endurskoðun á áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) og íslenskra stjórnvalda. Sú endurskoðun var áformuð í lok þessa mánaðar.

Þetta kemur fram í viðtali Reuters við ráðherrann í dag. Það kemur ennfremur fram í máli Gylfa að íslensk stjórnvöld séu langt frá því að finna lausn á málinu. Lausn sem gæfi stjórnvöldum tækifæri til að draga frumvarp sitt til baka og koma þannig í veg fyrir boðaða þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

„Það er augljóst að stjórnvöld gera allt sem þau geta til að koma í veg fyrir frestun á áætlun AGS en ég held að líkurnar séu á móti okkur," segir Gylfi Magnússon sem bendir jafnframt á þær tafir sem urðu á áætlun AGS á síðasta ári vegna Icesave málsins.

„Því miður eru teikn á lofti um að svipuð staða sé að komast á núna," segir Gylfi Magnússon sem telur að seinkun á áætlun AGS muni draga úr fjárfestingum og vexti samhliða því að skapa þörf á frekari niðurskurði ríkisútgjalda.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×