Viðskipti innlent

Boltinn er hjá bönkunum

Stjórnvöld skapa forsendur til að flýta fyrir erfiðri fjárhagslegri endurskipulagningu einkageirans, að sögn viðskiptaráðherra. Fréttablaðið/GVA
Stjórnvöld skapa forsendur til að flýta fyrir erfiðri fjárhagslegri endurskipulagningu einkageirans, að sögn viðskiptaráðherra. Fréttablaðið/GVA

„Helstu lykilstærðir eru betri en menn spáðu. Samdráttur í fyrra var talsvert minni en menn gerðu ráð fyrir og góður afgangur var af vöruskiptum. Í raun erum við aðeins á undan áætlun þótt mörg verk séu enn eftir," segir Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, um skýrslu starfshóps Alþjóðagjaldeyrissjóðsins vegna annarrar endurskoðunar efnahagsáætlunarinnar. Hann segir miður að reikna megi með samdrætti á þessu ári. Til betri vegar horfi á því næsta. „Þá náum við aftur vopnum okkar," segir hann.

Gylfi viðurkennir að ákveðnir þættir hefðu mátt ganga hraðar, svo sem fjárhagsleg endurskipulagning sparisjóðakerfisins og endurskipulagning einkageirans, sem hann telur að muni taka á.

„Það er enginn ágreiningur um að best er að vinna þetta fljótt og vel. En boltinn er hjá bönkunum. Ríkið setur umgjörðina en stýrir því ekki," segir hann en tveir af viðskiptabönkunum eru að mestu í eigu kröfuhafa.

„Ríkið setur rammann með löggjöf og hefur ýmis áhrif á fjármálageirann í gegnum eftirlitsstofnanir. Við reynum að skapa forsendur svo menn spýti í lófana.- jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×