Viðskipti innlent

Dior notar vatn úr Ölfusinu í snyrtivörur

Verðmætur sopi Jón Ólafsson var öskutepptur í París í Eyjafjallagosinu í apríl og ræddi þá við forsvarsmenn tískuhússins Christian Dior.Fréttablaðið/vilhelm
Verðmætur sopi Jón Ólafsson var öskutepptur í París í Eyjafjallagosinu í apríl og ræddi þá við forsvarsmenn tískuhússins Christian Dior.Fréttablaðið/vilhelm

Franska snyrti- og tískuvörufyrirtækið Christian Dior hefur samið við fyrirtækið Icelandic Water Holdings um að nota lindarvatn úr Ölfusinu í krem sem kemur á markað í kringum áramótin. Vatninu er tappað á flöskur í verksmiðju Icelandic Water Holdings við Þorlákshöfn og selt um heim allan undir merkjum Icelandic Glacial.

Dior áætlar að kaupa allt að áttatíu tonn af vatni árlega sem notað verður við framleiðslu á kreminu, að því er segir í opinberri tilkynningu sem birt verður í vikunni.

Kremið heitir Dior Snow og er fyrir þá sem vilja lýsa upp húð sína. Prufuútgáfur með íslenska vatninu koma á markað í kringum áramótin. Markaðssetning um heim allan er fyrirhuguð árið 2012 með áherslu á Kína og önnur Asíuríki.

Jón Ólafsson, forstjóri og stjórnarformaður Icelandic Water Holdings, segir þetta gríðarlega mikilvægan samning, bæði fyrir ímynd Íslands og fyrirtækið. Erfitt sé að verðleggja hann. Hann bendir á að verðmæti samningsins liggi ekki síst í því að á hverri krukku og hverjum pakka sem geymi kremið komi fram að notað sé vatn Icelandic Glacial. Þetta er fyrsta skiptið sem Christian Dior notar vörumerki annars fyrirtækis á vörum sínum.

Jón segir samstarf tískuhússins og Icelandic Water Holdings að nokkru leyti gosinu í Eyjafjallajökli í vor að þakka. Gosið varð til þess að flugsamgöngur röskuðust verulega í Evrópu í apríl en Jón varð flugtepptur í nokkra daga í París, heimaborg Dior.

Hann nýtti ferðina vel, fundaði með bæði Bernard Hennet, forstjóra módelskrifstofunnar Elite, og forsvarsmönnum Christian Dior, sem voru að leita að vatni fyrir snyrtivörulínu sem þeir höfðu í hyggju að setja á markað.

„Þeir skoðuðu allt það vatn sem hægt er að nota í heiminum og komust að þeirri niðurstöðu að okkar vatn væri best. Síðan óskuðu þeir eftir viðræðum við okkur. Þetta er gífurleg viðurkenning," segir Jón og spáir því að samningurinn muni hafa góð áhrif á sölu átappaðs vatns undir merkjum Icelandic Glacial í Kína í kjölfarið. Vatnið kemur þar á markað eftir áramótin.

jonab@frettabladid.is





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×