Viðskipti innlent

Business.dk: Frá kamikaza fjármálum til bananalýðveldis

„Nú hrynur þetta alveg fyrir hið íslenska frændfólk okkar. Frá kamikaza fjármálum til bananalýðsveldis." Þannig hefst grein dálkahöfundarins Jens Chr. Hansen á vefsíðunni business.dk en Hansen er sérfræðingur Berlingske Tidende í efnahagsmálum og handhafi Calving verðlaunana dönsku.

Grein Hansen er mjög harðorð í garð Íslendinga og þess klúðurs sem þjóðin er lent í. Hansen segir þó að hann skilji vel afstöðu almennings á Íslandi. Hann myndi sko aldeilis segja nei ef hann væri spurður hvort hann ætti að borga skuldir fjárglæfra- og óreiðumanna. En svona séu bara reglurnar og menn hefðu talið að Íslendingar vildu spila eftir reglunum ef þeir hafa á annað borð áhuga á að vera hluti af hinu alþjóðlega samfélagi.

„Ísland reynir verulega á tillit alþjóðasamfélagsins. Þetta virkar eins og að Íslendingar séu að reyna að smeygja sér framhjá skuldbindingum sínum," skrifar Hansen. „Reyna að spila á að skilningur sé á sérkjörum fyrir litla landið þarna langt í norður...að enginn taki eftir því þegar litla Ísland hleypur frá reikningum sínum."

Hansen rekur málavöxtu í grófum dráttum í grein sinni, ákvörðun forsetans, viðbrögð Breta og Hollendinga, norrænu lánin o.fl. Hann segir að reikningurinn sem Ísland standi nú frammi fyrir að borga gæti reynst mun hærri til lengri tíma litið ef Íslendingar ætli að reyna að komast undan honum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×