Viðskipti innlent

Norska lögreglan rannsakar fjármálaglæpi á Íslandi

Rannsóknarhópur frá efnahagsbrotadeild norsku lögreglunnar (Økokrim) kemur til Íslands í næsta mánuði. Hópurinn mun aðstoða íslensk lögregluyfirvöld við rannsókn fjármálaglæpa í tengslum við bankahrunið haustið 2008.

Greint er frá þessu á vefsíðunni e24.no. Þar er haft eftir Geir Kjetil Finneide forstjóra Økokrim að þeir muni senda nokkra af reynsluboltum sínum til Íslands. „Starfsmenn með reynslu af rannsóknum á stórum efnahagsbrotamálum," segir Finneide.

Finneide vill ekki upplýsa um hve mikinn fjölda af rannsóknarlögreglumönnum sé hér um að ræða. Slíkar upplýsingar liggi aldrei á lausu hjá Økokrim.

Fram kemur í fréttinni að Økokrim hafi oft áður sent reynda starfsmenn sína til annarra landa.

„Það sem er óvenulegt í þessu tilfelli er að málin eru hlutfallslega mjög umsvifamikil og stór í samanburði við stærð landsins," segir Finneide. „Og hve stór hluti af bankakerfi landsins blandast inn í málin, þó ekki endilega í glæpamálin."












Fleiri fréttir

Sjá meira


×