Viðskipti innlent

Erlend skuldastaða þjóðarbúsins lækkar um 50 milljarða

Sigríður Mogensen skrifar

Erlend skuldastaða þjóðarbúsins lækkar um 50 milljarða vegna samkomulags sem Seðlabanki Íslands hefur gert við Seðlabankann í Lúxemborg. Fjórðungur af krónueign í erlendri eigu flyst heim, en hundruð milljarða krónueign útlendinga er ein meginástæða gjaldeyrishaftanna. Seðlabankastjóri segir samkomulagið skref í átt að afnámi þeirra.

Samkomulagið var undirritað í Lúxemborg í gær.

Forsaga málsins er sú að Landsbankann sárvantaði erlent lánsfé sumarið 2008. Bankanum tókst að fá lán hjá Seðlabankanum í Lúx fyrir tugi milljarða með veði í skuldabréfum Avens B.V. félags í eigu Landsbankans.

Landsbankinn lagði íslensk skuldabréf inn í það félag sem tryggingu fyrir lánunum. Avens varð stærsti einstaki eigandi krónueigna utan Íslands, með eignir upp á 120 milljarða króna. Við bankahrunið varð Seðlabankinn í Lúx stærsti eigandinn, þar sem eignir Avens voru veðsettar seðlabankanum.

Seðlabanki Íslands og ríkið hafa nú keypt skuldabréf Avens og hafa þannig fullt yfirráð yfir eignum félagsins.

Seðlabankinn greiðir fyrir þessi kaup með rúmlega 400 milljóna evra skuldabréfi útgefnu af ríkissjóði til 15 ára auk reiðuféi upp á 35 milljónir evra og 6 milljarða króna.

Með samkomulaginu aukast skuldir ríkisins í erlendri mynt. Á móti kemur að skuldir ríkisins við erlenda aðila í krónum lækka mun meira á móti. Í heild lækkar erlend skuldastaða þjóðarbúsins um 50 milljarða króna.

Krónan hefur styrkst í dag.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×