Viðskipti innlent

Afgangur af vöruskiptum 5% af landsframleiðslu

Reynist bráðabirgðatölurnar fyrir desember réttar nam afgangur af vöruskiptum u.þ.b. 5% af áætlaðri vergri landsframleiðslu (VLF) síðasta árs.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að til samanburðar má geta þess að í síðustu Peningamálum í nóvember síðastliðnum spáði Seðlabankinn því að afgangur af vöru- og þjónustujöfnuði myndi nema 6,7% af VLF á nýliðnu ári.

Afgangur af þjónustuviðskiptum við útlönd nam tæplega 31 milljarði kr. á fyrstu þremur fjórðungum ársins. Með hliðsjón af því að síðasti fjórðungur ársins er jafnan slakur hvað þjónustujöfnuð varðar áætlum við að afgangur af vöru- og þjónustujöfnuði gæti samanlagt hafa numið 105-110 milljörðum kr. á síðasta ári. Það samsvarar 6,5-7,0% af áætlaðri VLF ársins og virðist því sem spá Seðlabanka muni verða nærri lagi hvað þetta varðar

Útlit er fyrir að afgangur af vöruskiptajöfnuði hafi numið u.þ.b. 73 milljörðum kr. á síðasta ári. Er það mikill viðsnúningur frá árinu 2008 þegar tæplega 7 milljarða kr. halli var á vöruskiptum við útlönd, en munurinn skýrist af stærstum hluta af þriðjungs magnsamdrætti innflutnings á milli ára.

Bráðabirgðatölur sem Hagstofan birti í morgun benda til þess að afgangur af vöruskiptum hafi verið tæpir 7 milljarða kr. í desember síðastliðnum. Samkvæmt þeim voru fluttar út vörur fyrir 42 milljarðar kr. í mánuðinum en inn fyrir tæplega 35,1 milljarða kr.

Útflutningurinn skrapp saman um ríflega 2 milljarða kr. á milli mánaða og hefur ekki verið minni að krónutölu síðan í júlí síðastliðnum. Hagstofan nefnir að þar hafi togast á aukning í verðmæti áls á milli mánaða og minna verðmæti sjávarafurða.

Hækkandi álverð hefur aukið útflutningsverðmæti áls jafnt og þétt frá vordögum, og svipaða sögu má raunar segja af sjávarafurðum þótt í minna mæli sé.

Innflutningur minnkaði hins vegar um 3 milljarða kr. á milli mánaða sakir minni innflutnings á eldsneyti og hrá- og rekstrarvörum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×