Lífið

Davíð tilnefndur til verðlauna

Davíð Charles Friðbertsson hefur verið tilnefndur til verðlauna á kvikmyndahátíðinni Swansea Bay Film Festival í Bretlandi.
Davíð Charles Friðbertsson hefur verið tilnefndur til verðlauna á kvikmyndahátíðinni Swansea Bay Film Festival í Bretlandi.
Stuttmyndin, Vet Inte, í leikstjórn Davíðs Charles Friðbertssonar hefur verið tilnefnd til verðlauna í flokknum besta alþjóðlega stuttmyndin á kvikmyndahátíðinni Swansea Bay Film Festival. Hátíðin er haldin í Bretlandi 8. til 16. maí og er verndari hennar hin heimsþekkta leikkona Catherine Zeta-Jones.

Davíð nam kvikmyndagerð og leikstjórn við kvikmyndaskólann Prag Film School og er stuttmyndin Vet Inte lokaverkefni Davíðs frá skólanum. Myndin er skotin á svonefnda Super 16-filmu og lauk Davíð við eftirvinnslu hennar nú í febrúar og samdi Steve Sampl­ing tónlistina fyrir myndina. „Ég kláraði myndina í Berlín í febrúar og sendi hana svo áfram á stuttmyndahátíðir víðsvegar um heiminn. Það er mjög ánægjulegt að vera tilnefndur í flokki bestu stuttmynda með fyrstu myndina sína,“ segir Davíð, sem hyggst fara á hátíðina í Swansea. „Fjölskylda mín setti saman í púkk svo ég get verið viðstaddur. Það fylgir þessum bransa víst að þurfa að selja sig, kynna verk sín og skapa tengsl við aðila sem starfa innan bransans og þess vegna er gott að geta mætt á hátíðina,“ segir hann.

Um þessar mundir vinnur Davíð að nýju handriti ásamt íslenskum og þýskum félögum, handritið fjallar um ungan pilt sem sendur er inn á Tsjernóbýl-svæðið skömmu eftir slysið til að hnupla verðmætum sem eftir urðu. Þýskur framleiðandi hefur nú þegar sýnt verkefninu áhuga og verður myndin að öllum líkindum framleidd þar í landi. „Handritið var upphaflega hugsað sem handrit að stuttmynd, en þýski framleiðandinn vildi kvikmynd í fullri lengd og við erum sem sagt að vinna í því þessa stundina,“ útskýrir Davíð. - sm





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.