Viðskipti innlent

Íslenska krónan rýrnað um 99,99 prósent frá seinna stríði

Hafsteinn Hauksson skrifar
Krónan illa stödd.
Krónan illa stödd.

Íslenska krónan hefur rýrnað um 99,99 prósent frá seinna stríði vegna verðbólgu. Seðlabankinn segir sögu peningastefnu og gjaldmiðlamála á Íslandi vera þyrnum stráða.

Þetta kemur fram í skýrslu Seðlabankans til viðskiptaráðherra um peningastefnuna og fyrirkomulag hennar til framtíðar. Þar er fjallað stuttlega um verðbólguþróun í sögulegu samhengi á Íslandi.

Verðbólga hefur valdið því að kaupmáttur hverrar krónu hefur rýrnað afar mikið síðustu áratugi. Sem dæmi er nefnt að í ágúst síðastliðnum hefði þurft meira en 7100 krónur til að kaupa þá vöru og þjónustu sem ein króna hefði keypt undir lok heimsstyrjaldarinnar árið 1944 ef ekki hefði komið til þess að tvö núll voru slegin af krónunni árið 1981. Það er rýrnun upp á 99,99% á rúmlega 65 ára tímabili.

Í kaflanum er einnig rifjað upp að íslenska krónan hafi verið skráð á pari við dönsku krónuna fram til ársins 1920, en á því ári var ákveðið að skrá gengi hennar sérstaklega.

Gengi dönsku krónunnar er nú um 20 íslenskar krónur, en sé tekið tillit til myntbreytingarinnar 81 má segja að gengi dönsku krónunnar sé 2000 gamlar krónur. Verðgildi íslensku krónunnar gagnvart hinni dönsku hefur því rýrnað um 99,95 prósent á 90 ára tímabili.

Í skýrslunni er sagt að saga peningastefnu og gjaldmiðlamála á Íslandi sé því þyrnum stráð allt frá upphafi, óháð því hvernig gengis- og peningastefnan hefur verið útfærð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×