Viðskipti innlent

Atlantic Airways tapar 57 til 100 milljónum á gosinu

Færeyska flugfélagið Atlantic Airways, sem skráð er í Kauphöllinni, hefur tapað 2,5 til 4,5 milljónum danskra kr. eða 57 til 100 milljónum kr. á eldgosinu í Eyjafjallajökli.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu til Kauphallarinnar. Þar segir að á síðustu dögum hafi starfsfólk félagsins unnið að því hörðum höndum að lágmarka skaðann af gosinu. Flugvélum félagsins hafi verið beint á aðra flugvelli en þá sem lokaðir voru eftir því sem tök voru á. Þá hafi félagið átt fyrstu flugvélin sem tók á loft frá Kaupmannahöfn eftir að Kastrup flugvöllur var opnaður aftur fyrir umferð.

Í dag séu allar áætlanir félagsins á réttum tímum þar sem búið sé að fljúga með alla þá farþega sem þurftu að bíða vegna öskunnar frá gosinu. Flugmálayfirvöld í Danmörku hafa samþykkt að allar vélar félagsins hafi leyfi til að fljúga um svæði 2 í nýjum takmörkunum um flug í lofthelgi Danmerkur. Reiknar félagið með að þetta leyfi dragi úr truflunum á flugi þess á næstu dögum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×