Erlent

NATO reiðubúið að verja Eystrasalt fyrir Rússum

Óli Tynes skrifar
Rússneskir skriðdrekar streyma inn í Georgíu.
Rússneskir skriðdrekar streyma inn í Georgíu. Mynd/AP

Bandamenn eru reiðubúnir að senda níu herfylki til Eystrasaltslandanna ef Rússar gera þar árás, samkvæmt skjölum frá WikiLeaks. Herfylkin kæmu frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Þýskalandi og Póllandi. Hernaðaráætlun þessu tengd var samþykkt fyrr á þessu ári. Þar var meðal annars kveðið á um hvaða hafnir eigi að nota til þess að taka við landgönguliði og herskipum Vesturveldanna.

Breska blaðið The Guardian segir að áætlunin sé til komin vegna óska stjórnvalda í Eitstlandi og Lettlandi og Litháen sem séu uggandi um sinn hag eftir hið stutta en snarpa stríð milli Rússlands og Georgíu á síðasta ári. Varnaráætlun fyrir Pólland lá þá þegar fyrir og ákveðið var að útvíkka hana fyrir Eystrasaltsríkin.

Mikil áhersla hefur verið lögð á að halda þessu leyndu, enda vill NATO vingast við Rússa og hafa sem best samband við þá á öllum sviðum. Gera má því skóna að Rússar verði ekki hrifnir af þessum fréttum. Og NATO ríkin ekki hrifin af því að ljóstrað skuli upp um þessar áætlanir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×