Viðskipti innlent

Hressileg lækkun á skuldatryggingaálagi Íslands

Skuldatryggingaálag ríkissjóðs Íslands hefur lækkað hressilega undanfarna viku. Í morgun stóð álagið til 5 ára í 375 punktum (3,75%) en fyrir viku síðan stóð það í 425 punktum (4,25%). Álagið nú er með lægra móti miðað við þróun þessa árs, en það sem af er ári hefur álagið verið að meðaltali 487 punktar. Hámarki náði álagið í byrjun febrúar þegar það toppaði í 675 punktum.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að þrátt fyrir að telja megi saman ýmsa þætti sem gætu rökstutt lægra álag á ríkissjóð nú, svo sem farsæla niðurstöðu annarrar endurskoðunar AGS og breytingar á horfum lánshæfismats hjá Moody´s til betri vegar, er þó líklegra að lækkunina nú megi rekja til almennrar stemmningar á markaði með skuldatryggingar.

Þannig hefur skuldatryggingaálag annarra ríkja einnig lækkað undanfarna viku. Eru Grikkland, Spánn og Portúgal þar meðtalin. Lækkun áhættuálags ríkisjóðs Íslands virðist því ekki tengjast innlendum þáttum beint, þó að af nógu sé að taka í þeim efnum, heldur virðist vera um almenna hreyfingu á mörkuðum að ræða. Þetta bendir til þess að áhættufælni sé nú á undanhaldi, að minnsta kosti í bili.

Mörgum kann að skjóta skökku við að svo sé á sama tíma og hriktir rækilega í stoðum myntbandalags Evrópu, og Spánn og Portúgal virðast vera næst á matseðli alheimskreppunnar. Hinsvegar er ljóst að óvissa varðandi örlög þessara ríkja hefur farið minnkandi og Grikkland hefur nú fengið björgunarhring frá AGS og ESB. Þrátt fyrir að björgunarpakkinn hafi sætt nokkurri gagnrýni virðist sýnt að Grikkland mun nú komast yfir stóra gjalddaga sem framundan eru í maí og júní og hefur því verið bjargað fyrir horn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×