Viðskipti innlent

Héraðsdómur riftir greiðslu á skuld 365 hf. við Glitni

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fallist á kröfu þrotabús Íslenskrar afþreyingar hf. um að rift verði greiðslu á 305 milljóna kr. skuld 365 hf. við Glitni banka.

Í dóminum kemur fram að stofnað var til skuldarinnar í júlí 2008 en hún var síðan greidd í júlí árið eftir með lánasamningi milli Rauðsólar, félags Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, og Íslandsbanka. Rauðsól keypti í nóvember 365 miðla ehf. út úr félaginu 365 hf. Í kjölfarið var svo nafni 365 hf. breytt í Íslenska afþreyingu ehf. sem aftur var tekin til gjaldþrotaskipta í júní í fyrra.

Í niðurstöðum dómsins segir að af gögnum málsins verður ráðið að náin tengsl voru milli Rauðsólar ehf., 365 hf., 365 miðla ehf. og Glitnis banka hf. á árinu 2008 og vafalaust verður að telja að forsvarsmenn félaganna, þar sem einn þeirra hafði ráðandi hlut í öllum félögunum, hafi haft fulla vitneskju um fjárhagsstöðu 365 hf. -- sem síðar fékk nafnið Íslensk afþreying hf. -- er Rauðsól ehf. keypti alla hluti í 365 miðlum ehf. hinn 3. nóvember 2008.

Ráðið verður af fundargerð stjórnarfundar 365 hf., hinn 1. nóvember 2008, að stjórnarmönnum fyrrnefndra félaga var á þeim tíma ljóst að 365 hf. stefndi í gjaldþrot vegna neikvæðrar eiginfjárstöðu, og gjalddaga skuldabréfaflokks þá í næstu viku. Einn stjórnarmanna, Árni Hauksson, taldi að eignir dygðu ekki fyrir skuldum með vísun til fundargagna, sem hann taldi sýna þetta nokkuð ljóslega.

Að beiðni skiptastjóra athugaði endurskoðandi efnahag 365 hf. (Íslenskrar afþreyingar ehf.) eins og hann var eftir að Rauðsól ehf. keypti 365 miðla ehf. af 365 hf., hinn 3. nóvember 2008, og taldi hann að áætla mætti að skuldir félagsins umfram eignir hefðu verið 4,7 milljarðar kr. hinn 31. desember 2008.

Á árinu 2008 var Jón Ásgeir Jóhannesson stjórnarformaður 365 hf. (Íslenskrar afþreyingar hf.) jafnfram fór hann með ráðandi hlut í Glitni banka hf. (Íslandsbaka hf.), þ.e. með um 35% hlut í bankanum í gegnum félögin Baugur Group Holding og Fl Group, þegar lánssamningur, milli 365 hf. sem lántakanda og Glitnis banka hf. sem lánveitanda, var gerður hinn 31. júlí 2008.

Ráðstöfun stjórnar Íslenskrar afþreyingar hf., er áður bar nafnið 365 hf., á eignum félagsins til hagsbóta fyrir Íslandsbanka hf. á kostnað annarra kröfuhafa var því ekki tilhlýðileg enda bendir ekkert til annars en að forsvarsmenn Íslandsbanki hf. hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærni Íslenskrar afþreyingar hf. á þeim tíma.

Greiðsla á skuld samkvæmt lánssamningi 365 hf. sem lántaka og Glitnis banka hf. (Íslandsbanka) sem lánveitanda, dags. 31. júlí 2008, sem fram fór með lánssamningi Rauðsólar ehf. sem lántaka og Íslandsbanka hf. sem lánveitanda, dags. 17. júlí 2009, var því ótilhlýðileg.

Að virtu öllu framanrituðu verður fallist á dómkröfur stefnanda. Rétt er að stefndi greiði stefnanda 2.000.000 króna í málskostnað.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×