Viðskipti innlent

Grindavík semur við Titan Global um gagnaver

Ólafur Örn Ólafsson bæjarstjóri Grindavíkurbæjar, Arnþór Halldórsson stjórnarformaður Titan Global og Júlíus Jónsson forstjóri HS Orku við undirritun viljayfirlýsingarinnar.
Ólafur Örn Ólafsson bæjarstjóri Grindavíkurbæjar, Arnþór Halldórsson stjórnarformaður Titan Global og Júlíus Jónsson forstjóri HS Orku við undirritun viljayfirlýsingarinnar.
Ólafur Örn Ólafsson, bæjarstjóri Grindavíkurbæjar, undirritaði í gær viljayfirlýsingu við Titan Global ehf. og HS Orku hf. um uppbyggingu gagnavers í Grindavíkurbæ sem noti orku frá fyrirhuguðum jarðvarmavirkjunum í sveitarfélaginu.

Að sögn Ólafs Arnar, er markmið sveitafélagsins að efla atvinnuuppbygginu, auka fjölbreytni starfa og stuðla að áframhaldandi uppbygginu umhverfisvænnar starfsemi í sveitarfélaginu, að því er segir í tilkynningu um málið.

Titan Global ehf. er þróunarfélag um stofnun og rekstur umhverfisvænna gagnavera. Félagið býður viðskiptavinum sínum að hagnýta sér einstakar aðstæður á Íslandi fyrir náttúrlega kælingu og nýtingu endurnýjanlegarar orku. Að sögn Arnþórs Halldórssonar, stjórnarformanns Titan Global ehf., er mikil vakning meðal alþjóðlegra fyrirtækja í upplýsingatækniiðnaði að nota endurnýjanlega orku og lágmarka losun gróðurhúsaloftegunda í starfsemi sinni.

Undirritun viljayfirlýsingar við Grindavíkurbæ og HS Orku sé mikilvægt skref fyrir Titan Global til þess að geta boðið viðskiptavinum sínum upp á skýran valkost er mæti ítrustu kröfum um umhverfisvernd, afhendingaröryggi og hagkvæmni.

HS Orka mun sjá gagnaveri Titan Global í Grindavík fyrir orku frá fyrirhuguðum stækkunum á jarðvarmavirkjunum félagsins sem og nýjum virkjanakostum í sveitarfélaginu. Að sögn Júlíusar Jónssonar, forstjóra HS Orku, er undirritun viljayfirlýsingarinnar liður í stefnu HS Orku að stuðla að uppbyggingu umhverfisvæns iðnaðar sem nýtir orku frá jarðavarmavirkjunum félagsins.

Næsta skref í samstarfi Grindavíkurbæjar, HS Orku og Titan Global er ákvörðun hentugrar lóðar í sveitarfélaginu, hönnun mannvirkja og nánari tímaáætlun um uppbyggingu gagnversins og afhendingu orku.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×