Viðskipti innlent

Lán færð í 110% af virði eigna

Stjórnendur Landsbankans telja þau úrræði sem nú séu fram komin duga fyrir þorra viðskiptavina.
Fréttablaðið/GVA
Stjórnendur Landsbankans telja þau úrræði sem nú séu fram komin duga fyrir þorra viðskiptavina. Fréttablaðið/GVA
Viðskiptavinir Landsbankans sem eru með húsnæðislán hjá bankanum geta sótt um að fá felldar niður skuldir umfram 110 prósent af markaðsvirði eigna sinna með nýjum úrræðum fyrir skuldara sem kynnt voru í gær.

Bankinn mun fá fasteignasala til að meta markaðsvirði húsnæðis þeirra viðskiptavina sem óska eftir niðurfellingu. Skuldir umfram 110 prósent af verði eignanna verða felldar niður.

Í tilkynningu frá Landsbankanum segir að þessi leið henti þeim sem séu með hátt veðhlutfall á eign sinni og þurfi að lækka greiðslubyrði lánsins.

Þeir viðskiptavinir sem eru með lán í erlendri mynt geta einungis nýtt sér þetta úrræði ef þeir samþykkja að breyta lánunum í verðtryggð eða óverðtryggð lán í íslenskum krónum. 

Kjörin á lánunum verða sambærileg þeim sem bjóðast á hefðbundnum íbúðarlánum bankans. Vextir verðtryggðra húsnæðislána hjá bankanum eru nú 1,8 prósent, en óverðtryggð lán í íslenskum krónum bera 8,5 prósenta vexti.

Í tilkynningu Landsbankans segir að niðurfelling lána langt yfir markaðsvirði íbúða bætist við önnur úrræði sem skuldurum standi til boða. Það sé mat bankans að með þeim úrræðum sem í boði séu geti þorri viðskiptavina lækkað greiðslubyrði lána sinna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×