Viðskipti innlent

Sérstakur saksóknari fær öll gögn

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari.
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari. Mynd/Anton Brink

Undirréttur í Lúxemborg hefur úrskurðað að afhenda skuli sérstökum saksóknara öll gögn sem aflað var með húsleitum í Banque Havilland fyrr á árinu. Bankinn og fyrirsvarsmenn 19 félaga hafa kært úrskurðinn til Hæstaréttar.

Fjörutíu lögregluþjónar gerðu húsleit í Banque Havilland sem áður var Kaupþing í febrúar sl. Húsleitin var gríðarlega umfangsmikil og var lagt hald á fleiri þúsund skjöl. Sérstakur saksóknari hefur þó ekki fengið gögnin í hendurnar á þeim tíu mánuðum sem liðnir eru. Fyrirsvarsmenn 19 félaga og Banque Havilland kærðu afhendingu gagnanna og fór málið í formlegt ferli.

Rannsóknardómari í Lúxemborg hefur síðan þá metið hvort réttarbeiðni sérstaks saksóknara nái til þeirra gagna sem haldlögð voru í húsleitinni.

Fyrir um hálfum mánuði úrskurðaði svo undirréttur í Lúxemborg að afhenda skuli gögnin til sérstaks saksóknara. Þeirri ákvörðun hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar og er vonast til að endanleg niðurstaða fáist í málið í febrúar á næsta ári. Talið er að gögnin frá Lúxemborg geti skipt sköpum fyrir rannsókn sérstaks saksóknara á málefnum Kaupþings.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×