Viðskipti innlent

Vestia og Atorka Group setja Parlogis í sölu

Söluferlið hefst 10. maí 2010 og er opið öllum áhugasömum fjárfestum, sem teljast fagfjárfestar samkvæmt lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti og sýnt geta fram á fjárfestingargetu umfram 300 milljónir króna.
Söluferlið hefst 10. maí 2010 og er opið öllum áhugasömum fjárfestum, sem teljast fagfjárfestar samkvæmt lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti og sýnt geta fram á fjárfestingargetu umfram 300 milljónir króna.
Vestia ehf., dótturfélag Landsbankans (NBI hf.) og Atorka Group hf. hafa falið Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans að annast sölu á öllu hlutafé í dreifingarfyrirtækinu Parlogis ehf.

Í tilkynningu segir að Parlogis á sér langa sögu sem eitt helsta dreifingarfyrirtæki á vörum til íslensks heilbrigðiskerfis. Markaðshlutdeild í dreifingu lyfja er yfir 30%. Fyrirtækið býr yfir 4.000 fermetra sérhæfðu lagerhúsnæði, nútíma upplýsingakerfum, þróuðum vinnuferlum og hæfu starfsfólki.

Þó rekstur Parlogis sé og hafi verið góður, fór félagið ekki varhluta af gengisfalli krónunnar og bankahruninu. Í kjölfarið leysti Landsbankinn hlut fyrri eiganda til sín. Í dag er Parlogis í eigu Vestia (80%) og Atorku Group (20%) eftir fjárhagslega endurskipulagningu þar sem hluta skulda var breytt í hlutafé.

Söluferlið hefst 10. maí 2010 og er opið öllum áhugasömum fjárfestum, sem teljast fagfjárfestar samkvæmt lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti og sýnt geta fram á fjárfestingargetu umfram 300 milljónir króna. Þeim fjárfestum sem óska eftir að taka þátt í söluferlinu ber að fylla út trúnaðaryfirlýsingu, veita upplýsingar vegna hæfismats og leggja fram fullnægjandi staðfestingu á áðurnefndri fjárfestingargetu. Unnt er að nálgast kynningarblað, trúnaðaryfirlýsingu og eyðublað vegna hæfismats á heimasíðu Landsbankans, landsbankinn.is.

Þeir fjárfestar sem uppfylla skilyrði fyrir þátttöku á fyrra stigi söluferlisins fá afhent ítarleg kynningargögn um Parlogis. Á grundvelli þeirra gagna skulu bjóðendur gera óskuldbindandi tilboð á þar til gerðu tilboðseyðublaði. Frestur til að skila óskuldbindandi tilboði rennur út kl. 16:00, fimmtudaginn 27. maí 2010. Tilboð verða opnuð í viðurvist óháðs aðila.

Þeim sem leggja fram hagstæðustu tilboðin að mati seljenda verður boðið að taka þátt á síðara stigi söluferlisins. Þeir fá þá aðgang að viðbótar gögnum um Parlogis í gagnaherbergi til að framkvæma áreiðanleikakönnun, auk þess sem þeim verður boðið til kynningar með stjórnendum fyrirtækisins. Frestur til að skila bindandi tilboði rennur út kl. 16:00 mánudaginn 21. júní 2010. Stefnt er að því að ljúka söluferlinu fyrir lok júní 2010.

Rétt er að árétta að seljendur, Vestia og Atorka Group, áskilja sér rétt til að hafna öllum tilboðum, breyta söluferlinu og/eða stöðva það eftir atvikum. Öllum þátttakendum verður tilkynnt um slíka ákvörðun og rökstuðning fyrir henni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×