Viðskipti innlent

Gífurlegur samdráttur í utanlandsferðum landsmanna

Árið 2009 voru brottfarir Íslendinga um Leifsstöð um 235 þúsund talsins sem er fækkun upp á 37,4% frá fyrra ári.

Fjallað er um málið í Morgunkorni Íslandsbanka. Þar segir að þessi mikli samdráttur í utanferðum landans kemur ekki á óvart og er nokkuð ljóst að þessa fækkun megi að miklu leyti rekja til þess að fjárhagsleg staða margra Íslendinga hefur tekið miklum stakkaskiptum til hins verra og verulega hefur dregið úr kaupmætti landans á erlendri grundu með veikingu krónunnar.

Í nóvember síðastliðnum jukust utanferðir Íslendinga um 15,5% frá sama tíma árið á undan og var það í fyrsta sinn sem slík aukning á sér stað síðan í júní árið 2008. Aftur varð aukning upp á 3,4% í desembermánuði frá sama tíma árið 2008.

Reikna með að botninum séð náð í utanferðum Íslendinga og að landinn komi til með að ferðast meira erlendis á árinu 2010 en 2009. Vísbendingu af þessu tagi má einnig sjá í niðurstöðum Gallup úr ársfjórðungslegum mælingum á fyrirhuguðum stórkaupum fólks, en einn liður í stórkaupsvísitölunni er vísitala fyrir fyrirhugaðar utanlandsferðir.

Hækkaði sú vísitala um 9 stig í desembermánuði frá síðustu mælingu sem átti sér stað í september síðastliðnum. Mælist vísitalan nú 116,1 stig sem er hæsta gildi hennar síðan fyrir bankahrun. Töldu 49% aðspurða mjög líklegt eða frekar líklegt að þeir kæmu til með að ferðast til útlanda á næstu 12 mánuðum en 35,2% það mjög eða frekar ólíklegt, að því er segir í Morgunkorninu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×