Viðskipti innlent

Samið við Kaupþingsmenn sem geta nær ekkert greitt

Tæplega helmingur þeirra rúmlega sextíu starfsmanna Kaupþings sem slitastjórn bankans hefur rukkað vegna lána sem þeir fengu til hlutabréfakaupa hefur samið við bankann um endurgreiðslu. Samningarnir sem þegar hafa náðst munu skila búinu vel á annað hundrað milljónum.

Starfsmennirnir fengu fimmtán milljarða að láni með persónulegri ábyrgð sem var felld niður á stjórnarfundi bankans nokkrum dögum fyrir bankahrun. Þeirri ákvörðun var rift í vor. Persónulegu ábyrgðirnar sem nú hefur verið reynt að innheimta námu þó innan við tíu milljörðum. Af þessum ríflega sextíu starfsmönnum hlutu um tuttugu lykilstarfsmenn níutíu prósent heildarupphæðarinnar að láni.

Enginn starfsmannanna hefur verið knúinn í gjaldþrot, að sögn Ólafs Garðarssonar, formanns slitastjórnar Kaupþings. Langflestir hafa samþykkt að skila inn umbeðnum upplýsingum, til dæmis skattframtölum mörg ár aftur í tímann, svo slitastjórnin geti metið greiðslugetuna og samið á grundvelli hennar. "Svo eru dæmi um að fólk neiti okkur um upplýsingar og þá fara málin fyrir dóm," segir Ólafur.

Samið var við flesta um að endurgreiða sextíu til sjötíu prósent. "Nú erum við að fást við þá sem ekki geta greitt sínar skuldir - sýna greiðsluvilja en eiga ekki eignir til að mæta þeim," segir Ólafur. Kröfuhafar hafi ekki hag af að keyra menn í þrot, enda eignir þeirra gjarnan veðsettar og lítið úr þrotabúunum að hafa.

Á þriðja tug manna hafa kosið að fara með mál sín fyrir dóm. Það eru aðallega þeir sem mest skulda.- sh








Fleiri fréttir

Sjá meira


×